Fara í efni
Körfuknattleikur

Þórsarar fögnuðu sigri í fjórða leiknum í röð

Jason Gigliotti var atkvæðamesti leikmaður Þórs í kvöld eins og oft áður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar unnu fjórða leikinn í röð í 1. deild karla í körfubolta þegar þeir fengu Ármenninga í heimsókn í Höllina í kvöld. Lokatölur urðu 94:87. Þórsarar eru nú jafnir Þrótti úr Vogum og ÍA í 6. til 8. sæti og nánast öruggir með sæti í úrslitakeppni um sæti í efstu deild að ári.

  • Skorið eftir leikhlutum: 24:26 – 27:16 – 51:42 – 22:22 – 21:23 – 94:87

Allir leikhlutarnir fjórir voru hnífjafnir nema sá annar í röðinni. Gestirnir voru tveimur stigum eftir fyrstu 10 mínúturnar en Þórsarar stigu á bensíngjöfina í öðrum leikhluta og voru níu stigum yfir að honum loknum.

Jason Gigliotti gerði 27 fyrir Þór, tók 15 fráköst og gaf eina stoðsendingu. Harrison Butler: 22 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar; Reynir Róbertsson: 21 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar; Smári Jónsson: 12 stig og fjórar stoðsendingar; Baldur Jóhannesson: 11 stig, 13 fráköst og sex stoðsendingar.

KR vann ÍR á útivelli í kvöld í viðureign toppliðanna. KR er nú með tveggja stiga forskot á þessa gömlu erkifjendur sína og líklegast að Vesturbæjarliðið vinni deildina og fari rakleiðis upp í efstu deild. Liðin í 2. til 9. sæti taka þátt í úrslitakeppni um annað laust sæti.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina