Körfuknattleikur
Stuðningsmenn Þórs hittast í Minigarðinum
22.03.2024 kl. 20:00
Þórsstelpurnar fögnuðu innilega sem von var eftir að þær tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með sigri á Grindvíkingum. Márus Björgvin Gunnarsson
Spennan magnast fyrir úrslitaleik bikarkeppni kvenna í körfubolta sem fram fer á morgun. Þórsarar leika til úrslita, eins og Akureyri.net hefur fjallað um og andstæðingurinn er Keflavík, besta liðs landsins um þessar mundir. Leikið verður í Laugardalshöllinni í Reykjavík að vanda og hefst viðureignin kl.19.00.
Uppselt er í rútu stuðningsmanna frá Akureyri til Reykjavíkur vegna leiksins en í kvöld var ekki útilokað að selt yrði í aðra rútu ef nógu margir sýndu því áhuga að skella sér á leikinn. Lagt verður af stað frá Hamri kl. 10.00.
Stuðningsmenn Þórs eru hvattir til þess að mæta í Minigarðinn í Skútuvogi kl. 16.00 þar sem á að stilla saman strengi og búa sig sem best undir leikinn mikilvæga.
- Akureyri.net skorar á Akureyringa og aðra sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu að mæta og hvetja Þórsara til dáða. Við ramman reip verður að draga, það er vitað mál; Keflvíkingar eru taldir mun sigurstranglegri og því getur öflug stuðningssveit skipt Stelpurnar okkar miklu máli.