Fara í efni
Körfuknattleikur

Silfrið til Þórsara eftir hetjulega baráttu

Stuðningsmenn Þórs voru fjölmargir í Laugardalshöllinni og þeir hylltu leikmenn liðsins að leikslokum þrátt fyrir tapið. Falleg stund í Höllinni þrátt fyrir allt. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsfjölskyldan gengur líklega stolt, en aðeins sár, frá borði eftir VÍS-bikarvikuna sem lauk með úrslitaleik liðsins gegn Keflvíkingum í kvöld. Eftir hetjulega baráttu, frábæra frammistöðu í undanúrslitaleiknum og gríðarlega stemningu í kringum liðið undanfarna daga hittu Þórsstelpurnar fyrir ofjarla sína, besta lið landsins á góðum degi, Keflvíkinga. Niðurstaðan varð á endanum 22ja stiga tap og silfurverðlaun í VÍS-bikarnum.

Þórsarar náðu þriggja stiga forystu um miðjan fyrsta leikhlutann, 13-10, en þá hættu hlutirnir að ganga upp og Keflvíkingar skoruðu næstu 16 stig, hittu vel og hirtu fráköstin þegar þurfti. Ekkert stig kom frá Þór í tæpar fimm mínútur og Keflvíkingar með 13 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, tvö stig frá Keflavík á móti hverju einu frá Þór. Lore Devos skoraði tíu af þessum þrettán stigum.

Lore Devos með boltann í leiknum í dag. Hún var best í Þórsliðinu eins og svo oft áður. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Þungu fargi var létt af stuðningsfólki Þórsliðsins og stelpunum sjálfum þegar Heiða Hlín Björnsdóttir braut loks ísinn og setti þriggja stiga körfu í upphafi annars leikhluta. Ekki löngu seinna kom þristur frá Hrefnu Ottósdóttur, að vísu með tveggja stiga innskoti frá Keflvíkingum á milli. En Þórsliðið var vaknað aftur, vel stutt af Rauða hafinu. Á meðan hélt reyndar Keflavíkurvélin áfram að malla og munurinn áfram á bilinu 10-15 stig.

Það er kannski lýsandi fyrir muninn á liðunum að Lore Devos var stigahæst á vellinum í fyrri hálfleik, skoraði 16 af 34 stigum Þórs, á meðan sjö leikmenn Keflavíkur skoruðu á bilinu 5-10 stig. Munurinn var þó ekki nema 12 stig eftir fyrri hálfleikinn.

Keflvíkingar voru frískari í byrjun seinni hálfleiks og náðu 20 stiga forskoti þegar þriðji leikhluti var rúmlega hálfnaður. Skotnýting liðanna svipuð, en áberandi munur á stolnum og töpuðum boltum. Raunar má segja að Keflvíkingar hafi keyrt yfir Þórsara í þriðja leikhlutanum og gert endanlega út um leikinn.

Daníel Þórsþjálfari hvetur Maddie Sutton til dáða í einu leikhléinu í dag. Heiða Hlín Björnsdóttir til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson 

Það segir svo kannski eitthvað um leikinn og hvernig hann fór fram að fyrstu vítaskotin sem Þór fékk voru í lok þriðja leikhluta, þegar liðnar voru rúmar 29 mínútur af leiknum! Það vill líka svo undarlega til að þriðji leikhlutinn endaði í sömu tölum og annar leikhlutinn í undanúrslitaleiknum gegn Grindavík, nema bara á hinn veginn. Nú voru það Þórsarar sem skoruðu níu stig á móti 23 Keflvíkinga.

Þór - Keflavík (13-26) (20-21) 34-46 (9-23) (24-20) 67-89

Lore Devos var eins og oftast áður stigahæst Þórsara, skoraði 20 stig, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir skoraði 16 og Maddie Sutton 15 og tók 11 fráköst. 

Stig - fráköst - stoðsendingar

  • Lore Devos 20 - 7 - 9
  • Maddie Sutton 15 - 11 - 2
  • Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 14 - 6 - 0
  • Eva Wium Elíasdóttir 10 - 3 - 5
  • Hrefna Ottósdóttir 3 - 4 - 1
  • Heiða Hlín Björnsdóttir 3 - 3 - 0
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 2 - 2 - 1
  • Vaka Bergrún Jónsdóttir 0 - 1 - 0

Meira síðar