Fara í efni
Körfuknattleikur

Þór vann Stjörnuna og fór í undanúrslit

Takk fyrir stuðninginn! Frá vinstri, Hrefna Ottósdóttir (9), Heiða Hlín Björnsdóttir (4), Vaka Jónsdóttir (22), Karen Helgadóttir (6) og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir (77) eftir leikinn í kvöld. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór tryggði sér í kvöld sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í körfubolta, VÍS bikarkeppninni, með sigri á Stjörnunni í Íþróttahöllinni á Akureyri. Munurinn var 10 stig þegar lokaflautið gall, 87:77 og Þórsstelpurnar taka þátt í undanúrslitahelginni í fyrsta skipti. Glæsilegur áfangi hjá þessu skemmtilega liði!

  • Skorið eftir leikhlutum: 22:13 – 25:15 – 47:2820:27 – 20:22 – 87:77

Þórsliðið var frábært í fyrri hálfleik. Tölurnar að ofan tala sínu máli; stelpurnar okkar fóru hreinlega á kostum, náðu snemma afgerandi forystu og voru 19 stigum yfir í hálfleik.

Hulda Ósk Bergsteinsdóttir átti stórbrotinn fyrri hálfleik. Hún skoraði 23 stig í kvöld. 

Stundum skipast veður skjótt í lofti og það átti við í kvöld því gestirnir voru mjög grimmir í seinni hálfleiknum og gerðum Þórsurum erfitt fyrir á köflum með grimmri vörn. Stemningin var mögnuð í húsinu þar sem um 200 manns hvöttu Þórsliðið til dáða og öruggt mál að einhverjum var ekki farið að lítast á blikuna þegar munurinn var kominn niður í tvö stig. Tæpar átta mínútur voru þá eftir og á svið steig Hrefna Ottósdóttir þegar á þurfti að halda ekki í fyrsta skipti; setti niður tvö 3ja stiga skot með stuttu millibili. Sá neisti tendraði bálið sem reyndist nauðsynlegt á lokasprettinum, Þórsliðið hrökk í gang á ný og sigldi öruggum sigri í höfn.

Lore Devos lék gríðarlega vel eins og svo oft áður: gerði 30 stig, tók 14 fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Lore Devos og Hulda Ósk Bergsteinsdóttir léku gríðarlega vel; Lore gerði 30 stig og tók 14 fráköst og Hulda Ósk skoraði 23 stig; hefur varla leikið betur en í fyrri hálfleik í kvöld. Hún var með 72% skotnýtingu.

ÞÓR stig, fráköst, stoðsendingar

Lore Devos 30/14/8, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 23/6/1, Hrefna Ottósdóttir 15/4/1, Jovanka Ljubetic 6/2/2, Maddie Sutton 5/15/4, Heiða Hlín Björnsdóttir 5/1/1, Eva Wium Elíasdóttir 3/3/5, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 0/1/0, Rebekka Hólm Halldórsdóttir 0/0/1.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.

Undanúrslit í bikarkeppni kvenna verða miðvikudaginn 20. mars 2024 í Laugardalshöllinni og sigurliðin það kvöld mætast í úrslitum laugardaginn 23. mars. Ekki er ljóst hver mótherji Þórsliðsins verður í undanúrslitum.

Maddie Sutton lætur vaða í leiknum í kvöld. Hún skoraði óvenju lítið er alltaf gríðarlega mikilvæg og tók til dæmis 15 fráköst að þessu sinni.