Fara í efni
Körfuknattleikur

Óþokkar eru rúmlega hundrað á Pollamótinu

Birgir í búningi ársins, en á hverju ári eru nýjir búningar hannaðir í samstafi við HENSON. Mynd: RH

Birgir Össurarson er einvaldur í Ungmennafélaginu Óþokka, en það fer töluvert fyrir Óþokkum á Pollamóti Samskipa og Þórs, sem hófst í gær og lýkur í dag. Hópurinn er langfjölmennasta liðið og teflir fram alls átta liðum, bæði í karla- og kvennaflokki, auk þess að vera með sitt eigið liðslag sem fær að óma um Þórssvæðið. Óþokkar eru rúmlega 100 talsins á mótinu, og Birgir segir að allan fyrri dag Pollamótsins hafi verið Óþokkalið að keppa á einhverjum af völlum mótsins. 

Það er mikil væntumþykja í þessum hópi, og í ár langaði okkur að láta gott af okkur leiða

„Liðið fæddist fyrir 27 árum síðan á skrifstofunni hjá Samherja, og þá sendum við fyrst lið til leiks á Pollamótinu,“ segir Birgir, en þó það hafi byrjað sem vinnustaðahópur þar, hefur það teygt anga sína um víðan völl í dag. „Félagsskapurinn hefur vaxið og dafnað síðan og nú erum við með 13% allra liða á Pollamótinu og það gengur stórkostlega vel. Í upphafi gerði ég allt sjálfur í Ungmennafélaginu Óþokka, og er enn titlaður sem 'einvaldur', en ég er nú farinn að þiggja aðstoð við ýmislegt í utanumhaldinu. Það þarf samt alltaf mitt samþykki!“

 

Rúmlega hundrað Óþokkar í átta liðum keppa á Pollamóti Samskipa í ár.

Góðgerðastarfsemi komin til að vera

„Það er mikil væntumþykja í þessum hópi, og í ár langaði okkur að láta gott af okkur leiða,“ segir Birgir, en þó að það kosti ekki að vera meðlimur í Óþokkum, eru haldin fjáröflunarmót og fleira sniðugt til þess að afla fjár. „Við gerðum samkomulag við Píeta samtökin um reglulegan stuðning og að bera merki þeirra á búningunum. Við erum bara rétt að byrja í þessari góðgerðastarfsemi, þetta mun halda áfram.“ Búningarnir í ár eru mjög glæsilegir, glitrandi af norðurljósum, en Birgir segir að það séu hannaðir nýir búningar á hverju ári - þannig að hann á sjálfur 27 búninga í ár. Akureyri.net fjallaði um búningamálin hjá félaginu í fyrra.

 

Tvö Óþokkalið hafa lokið einvígi hér, að morgni föstudags á Pollamótinu. Mynd: RH

Keppa ekki bara í fótbolta

Félagsskapurinn er að vaxa og Óþokkar hafa líka keppt í handbolta, körfubolta, pílu og golfi svo eitthvað sé nefnt, segir Birgir, en meðal annars hefur verið farið erlendis til þess að keppa í fótbolta síðustu árin. „Eftirspurnin eftir því að komast í félagið er orðin mjög mikil, en við erum farin að taka við umsóknum hreinlega og velja inn! Ég tek allar ákvarðanir um nýja félaga. Það er mikil gleði, væntumþykja og ást í þessum hóp. Leiðindi eru ekki liðin og við hugsum um andlega líðan hvers annars.“

Á laugardagskvöldi Pollamótsins er haldið stórt lokahóf hjá UMF Óþokka, þar sem öllum leikmönnum er boðið ásamt mökum, en þau sem enn eru í fullu fjöri á miðnætti skella sér á Pollamótsballið í Boganum. „Það gengur vel hjá okkur framan af móti, hér eru allir sigurvegarar,“ segir Birgir að lokum.