Naumt tap Þórs eftir fádæma viðsnúning
Þórsarar töpuðu naumlega fyrir bikarmeisturum Stjörnunnar, 86:83, í Dominos deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta, í Höllinni á Akureyri í gærkvöldi, sunnudagskvöld.
Framan af var ekkert – nákvæmlega ekkert – sem gaf til kynna að einhver spenna yrði í leiknum því gestirnir hreinlega völtuðu yfir Þórsara með magnaðri pressuvörn, sem heimamenn höfðu engin svör við. En með ótrúlegri þrautseigju komust þeir þó mjög nálægt því að jafna, en vantaði herslumuninn. Slök hittni úr vítaskotum reyndist dýrkeypt, því Þórsurum brást bogalistin 12 sinnum af vítalínunni.
Staðan í hálfleik var 50:28 fyrir hið feykisterka lið Stjörnunnar og líklega töldu þá flestir leik nánast lokið. Ekki jókst bjartsýnin þegar leikstjórnanda Þórs, Dedrick Basile, var vikið af velli snemma í þriðja leikhluta (af fjórum). Hann fékk þá óíþróttamannslega villu öðru sinni, sem þýðir útilokun; fyrri villan var réttur dómur en sú síðari var afskaplega hæpin ákvörðun, svo ekki sé meira sagt. Þegar þetta gerðist var munurinn 18 stig, 53:35. Júlíus Orri Ágústsson, fyrirliði Þórsara er meiddur, svo ekki naut hans við en félagar hans lögðu árar aldeilis ekki í bát heldur tvíefldust. Smári Jónsson leysti Dedrick af hólmi og stóð sig gríðarlega vel.
Þórsarar náðu aldrei að jafna; munurinn varð minnstur tvö stig, 65:63, Stjarnan komst fljótlega 10 stigum yfir á ný, en svo var allt í járnum aftur í lokin. Gestirnir fögnuðu naumum sigri og Þórsarar geta nagað sig í handarbökin, einkum yfir tvennu; lélegri skotnýtingu af vítalínunni og hræðilegri byrjun.
Fyrir leikinn var hjartnæm stund í Höllinni; einnar mínútu þögn, til að heiðra minningu Ágústs H. Guðmundssonar, þess mikla körfuboltafrömuðar, sem lést á nýársdag eftir baráttu við MND sjúkdóminn, langt fyrir aldur fram.
Skorið í hverjum leikfjórðungi var sem hér segir: 14:26 - 14:24 - 30:12 - 25:24
Staðan eftir hvern leikfjórðung var sem hér segir: 14:26 - 28:50 - 58:62 - 83:86
Tölfræði leikmanna Þórs:
Srdjan Stojanovic 26 stig – 5 stoðsendingar
Andrius Globys 23 – 10 fráköst
Ivan Aurrecoechea Alcolado 17 stig – 11 fráköst
Ragnar Ágústsson 6 stig – 4 fráköst
Smári Jónsson 3 stig
Dedrick Deon Basile 3 stig
Kolbeinn Fannar Gíslason 3 stig – 2 fráköst
Hlynur Freyr Einarsson 2 stig – 4 fráköst.
Nánar má lesa um leikinn í stórfínni umfjöllun Karls Jónssonar á Vísi – sjá HÉR
- Á mynd Þóris Tryggvasonar er Dedrick Basile með boltann í gær en landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson sækir að honum. Dedrick var rekinn af velli í upphafi þriðja leikhluta.