Fara í efni
Körfuknattleikur

Mjög sanngjarn sigur KA á Fram – MYNDIR

Birgir Baldvinsson og Ívar Örn Árnason fyrirliði KA fagna marki þess fyrrnefnda sem kom KA-mönnum á bragðið gegn Fram. Þetta var fyrsta mark Birgir fyrir KA í Bestu deildinni. Mynd: Ármann Hinrik

KA-menn sigruðu Framara 2:0 á sunnudaginn í 20. umferð Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þrjú lífsnauðsynleg stig bættust þar með í sarpinn, KA fór tímabundið upp í sjötta sæti en færðist niður um eitt eftir að FH og ÍBV gerðu jafntefli um kvöldið.

Sigur KA var mjög sanngjarn og liðið eygir enn von um sæti í efri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt í tvennt að loknum 22 umferðum. Baráttan um sjötta sætið er einkum á milli KA, FH og Vestra sem öll hafa 26 stig en Vestri á leik við Víking í Reykjavík til góða. Liðin mætast í kvöld.  FH er sem stendur í fimmta sæti og Vestri í því sjötta.

Hallgrímur Mar Steingrímsson lék við hvern sinn fingur í leiknum. Tilkynnt var fyrir helgi að samningur hans við KA hefði verið framlengdur út næsta ár og Hallgrímur hélt upp á það stórbrotnum tilþrifum gegn Fram; einstaklega gaman er að horfa á þennan frábæra leikmann í  slíkum ham.

FH mætir Aftureldingu á útivelli í næsta leik og fær Fram í heimsókn í síðustu umferðinni. Vestri tekur á móti KR um næstu helgi og mætir svo á Greifavöllinn og mætir KA í 22. umferð sunnudaginn 14. september. Fyrir þá viðureign mætir KA Stjörnunni í Garðabæ.

Fyrsti hálftími leiksins á sunnudaginn var í rólegri en KA-menn gerðu þá tvö mörk með stuttu millibili og gerði í raun út um leikinn. Guðjón Ernir Hrafnkelsson var nálægt því að gera þriðja markið undir lok hálfleiksins.

Ármann Hinrik og Skapti Hallgrímsson tóku meðfylgjandi myndir.

ÞJARMAÐ AÐ STUBBI
Steinþór Már Auðunsson – Stubbur – markvörður KA hafði ekki ýkja mikið fyrir stafni í leiknum en gerði allt sem hann þurfti að gera. Rétt áður en KA-menn skoruðu þjarmaði varnarmaðurinn Kyle McLagan hressilega að Steinþóri eftir aukaspyrnu eins og sjá má á myndunum. Mörgum KA-manninum þótti tilhlýðilegt að bandaríski varnarmaðurinn fengi að líta gult spjald fyrir en hann slapp með skrekkinn.


_ _ _

MIKILVÆGT FYRSTA MARK BIRGIS
KA-menn brutu ísinn þegar nákvæmlega 32 mínútur voru liðnar. Guðjón Ernir sendi boltann frá hægri vængnum yfir á Hallgrím Mar Steingrímsson við markteigshornið vinstra megin, litli listamaðurinn tók boltann niður og vippaði hárnákvæmt yfir þrjá varnarmenn til Birnis Snæs Ingasonar sem kom askvaðandi og þrumaði að marki úr dauðafæri.

Minnstu munaði að Birnir gerði þarna fyrsta markið fyrir KA en var óheppinn; boltinn small í þverslánni en skaust þaðan út að vítateigslínu þar sem Birgir Baldvinsson, sá sókndjarfi bakvörður, tók hann niður og lagði fyrir sig – og skoraði með hnitmiðuðu  skoti með vinstra fæti. Boltinn smaug framhjá nokkrum varnarmönnum og Jóan Símun Edmundsson samherja Birgis en Færeyingurinn gaf reyndar sterklega til kynna að hann hefði komið við boltann og ætti þar með markið – eins og sönnum sóknarmanni sæmir!

  • Birgir fagnaði af mikilli innlifun enda markið mikilvægt, og það fyrsta sem hann gerir fyrir KA í Bestu deildinni. Hann hafði fram að þessu gert tvö mörk í deildinni, bæði sumarið 2022 þegar hann lék með Leikni.


_ _ _

JÓAN TVÖFALDAR FORYSTUNA
Tveimur mínútum og 20 sekúndum eftir mark Birgis lá boltinn aftur í marknetinu hjá Fram. Boltinn var sendur úr vörninni fram á miðjan vallarhelming KA þar sem Hallgrímur Mar kom Kennie Chopart, fyrirliða Fram, í opna skjöldu með laglegri hælspyrnu, Birnir Snær sendi fram hægri kantinn á Ingimar Torbjörnsson Stöle sem lék inn að miðju og renndi boltanum á hárréttu augnabliki á Jóan Símun Edmundsson sem skoraði með lúmsku skoti yst úr vítateignum.


_ _ _

ENN ER VON
KA-menn eygja enn von um sæti í efri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt í tvennt, sem fyrr segir, en það ræðst ekki fyrr en í síðustu umferð.

KA byrjaði afleitlega í vor; var með fjögur stig eftir fyrstu sex leikina og 12 stig að loknum 11 leikjum, þegar deildin var hálfnuð. Liðið hefur hins vegar leikið vel undanfarið og er taplaust í síðustu fimm leikjum og hefur fengið 11 stig af 15 mögulegum með þremur sigrum og tveimur jafnteflum.

Hallgrímur Jónasson þjálfari KA fylgist grannt með sínum mönnum í leiknum gegn Fram.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni

Leikir í síðustu tveimur umferðum Bestu deildarinnar áður en henni verður skipt í tvennt:

21. umferð, sunnudag 31. ágúst

  • ÍBV - ÍA
  • Afturelding - FH
  • Vestri - KR
  • Stjarnan - KA
  • Víkingur - Breiðablik
  • Fram - Valur

22. umferð, sunnudag 14. september

  • FH - Fram
  • KR - Víkingur
  • ÍA - Afturelding
  • Breiðablik - ÍBV
  • KA - Vestri
  • Valur - Stjarnan