Fara í efni
Körfuknattleikur

KA-menn sækja KR-inga heim í Bestu deildinni

Ásgeir Sigurgeirsson hleypur með boltann frá marki KR eftir að hann jafnaði fyrir KA í fyrri liðanna í Bestu deildinni í sumar. Markvörðurinn er Sigurpáll Sören Ingólfsson sem kom inn á í stað Guy Smit þegar hann var rekinn af velli skömmu fyrir markið. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA mætir KR í Reykjavík í kvöld í 16. umferð Bestu deildinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu.

Pétur Guðmundsson dómari flautar til leiks á slaginu 18.00 og leikurinn verður í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Fyrri leik liðanna í deildinni lauk 1:1 á KA-vellinum (Greifavellinum) í byrjun maí. KR-ingar byrjuðu af miklum krafti þann dag, Atli Sigurjónsson skoraði strax á þriðju mínútu og á sjöundu mínútu varði Steinþór Már Auðunsson markvörður KA vítaspyrnu með glæsibrag.

Það var Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA sem jafnaði metin þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum og KA-strákarnir sóttu linnulítið eftir það, enda manni fleiri þar sem Guy Smit markvörður KR var rekinn af velli skömmu áður en Ásgeir skoraði.

KA-menn unnu Víking 1:0 í síðustu umferð með marki Sveins Margeirs Haukssonar. Þeir sem oftast leika á miðjunni hjá KA, Rodri, Daníel Hafsteinsson og Bjarni Aðalsteinsson, voru allir fjarri góðu gamni í þeim leik og úrslitin ekki síst athyglisverð af þeim sökum. KR-ingar mættu Breiðabliki á útivelli í síðustu umferð og töpuðu 4:2.

KA og KR hafa bæði lokið 15 leikjum í deildinni. KA er í áttunda sæti með 18 stig en KR sæti neðar með 14 stig.

Þegar deildinni verður skipt í tvennt að 22 umferðum loknum halda sex efstu liðin áfram baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en þau neðri sex mætast innbyrðis. Þegar upp verður staðið, eftir fimm viðbótarleiki hvers liðs, falla tvö þau neðstu í þeim hópi.

Stjarnan er nú í sjötta sæti með 23 að loknum 16 leikjum. Með sigri í kvöld yrðu KA-strákarnir því aðeins tveimur stigum á eftir Stjörnumönnum og einu á eftir Fram sem er í sjöunda sæti en mætir botnliði Fylkis á miðvikudaginn.

KA á sjö leiki eftir áður en deildinni verður skipt í tvennt og því er 21 stig í pottinum.

  • KR - KA
  • KA - Valur
  • Fylkir - KA
  • KA - Stjarnan
  • Fram - KA
  • KA - Breiðablik
  • ÍA - KA

Staðan í deildinni