Fara í efni
Körfuknattleikur

Hroðaleg byrjun kom Þórsstelpunum í koll

Þórsarinn Lore Devos með boltann í kvöld. Dagný Lísa Davíðsdóttir til hægri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu með 13 stiga mun, 85:72, fyrir Grindvíkingum á heimavelli í kvöld í efstu deild Íslandsmóts kvenna í körfubolta, Subway deildinni. Þrír leikhlutar af fjórum voru jafnir og Þórsliðið hafði meira að segja betur í tveimur þeirra en fyrsti hluti leiksins reyndist sá sem skipti sköpum – og þá lék Þórsliðið því miður afleitlega.

Á sama tíma unnu Haukar lið Stjörnunnar og skutust upp í fimmta sæti en Þórsarar verða í sjötta sæti fyrir síðustu umferð hefðbundinnar deildarkeppni. Að henni lokinni mætast fimm efstu liðin innbyrðis og þau fjögur neðstu.

  • Skorið eftir leikhlutum: 5:27 – 22:24 – 27:51 – 23:18 – 22:16 – 72:85

Ekkert benti til annars á fyrstu mínútum leiksins en viðureignin gæti orðið jöfn og spennandi. Eftir þrjár og hálfa mínútu var staðan 5:5 en þá hrökk allt í baklás hjá Þórsstelpunum; ekkert gekk upp, hvert skotið af öðru geigaði og þær misstu boltann hvað eftir annað klaufalega. Gestirnir héldu hins vegar sínu striki og gerðu 22 stig í röð. Staðan 27:5 að loknum fyrsta leikhluta, ótrúlegt en satt.

Emma Karólína Snæbjarnardóttir gerði níu stig í kvöld og tók þrjú fráköst. Ánægjulegt er að sjá að þessi stórefnilega stúlka er farin að koma smávegis við sögu á nýjan eftir að hafa glímt við erfið meiðsli. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar náðu að klóra í bakkann framan af öðrum leikhluta en gestirnir höfðu örugga forystu í hálfleik. Grindvíkingar bættu í framan af þriðja hluta, komust mest 27 stigum yfir, en Stelpurnar okkar minnkuðu muninn og enn í fjórða leikhluta. Þór vann seinni hálfleikinn með 11 stiga mun en það dugði skammt vegna hins afleita fyrsti leikhlut, sem áður segir.

Þór; stig - fráköst - stoðsendingar: Lore Devos 22/5/3, Eva Wium Elíasdóttir 19/2/10, Maddie Sutton 14/12/5, Emma Karólína Snæbjarnardóttir 9/3/0, Hrefna Ottósdóttir 6/0/0, Hulda Ósk Bergsteinsdóttir 2/2/0, Karen Lind Helgadóttir 0/1/1, Heiða Hlín Björnsdóttir 0/1/0.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina.