Fara í efni
Körfuknattleikur

Handbolti: Þórsarar hársbreidd frá sigri

Þórður Tandri Ágústsson svífur inn af línunni og gerir eitt af fjórum mörkum sínum í gærkvöldi. Mynd: Jóhannes Long.

Þórsarar sóttu deildarmeistara FH heim í 6. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í gærkvöld. Heimamenn virtust ætla að sigla öruggum sigri heim þegar langt var liðið á seinni hálfleik en þá vöknuðu Þórsarar heldur betur til lífsins og í lokin máttu FH-ingar þakka fyrir að ná jafntefli, 34:34.

Leikurinn var jafn og spennandi framan af fyrri hálfleik og liðin skiptust á að skora. Síðustu 10 mínútur hálfleiksins sigu FH-ingar framúr, aðallega vegna góðrar markvörslu Daníels Freys, og í hléi var staðan 18:13 FH í vil.

FH-ingar héldu Þórsurum áfram í hæfilegri fjarlægð í seinni hálfleik og þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum var forskot þeirra komið upp í 8 mörk, 24:16. Þá fóru Þórsarar aðeins að vakna og á næstu mínútum náðu þeir að koma bilinu niður í 3 mörk. FH bætti þá aftur í og staðan var 30:25 þeim í vil þegar 10 mínútur lifðu leiks. 

Þórsarar sneru stöðunni sér í vil á örfáum mínútum

Þessar síðustu 10 mínútur voru ótrúlegur rússibani og Þórsarar sýndu svo sannarlega hvað í þeim býr. Þegar innan við 5 mínútur voru eftir af leiknum munaði þremur mörkum á liðunum en það tók Þór ekki nema 3 mínútur að jafna metin. Og þegar 15 sekúndur voru til leiksloka kom Oddur Gretarsson Þórsurum yfir úr vítakasti, 34:33, og hafnfirskir áhorfendur trúðu vart eigin augum. En þessar sekúndur dugðu heimamönnum þó til að fiska vítakast og jafna leikinn í blálokin.

Brynjar Hólm Grétarsson, til vinstri, og Kári Kristján Kristjánsson þruma að marki í Kaplakrika í gær. Myndir: Jóhannes Long.

Sannarlega svekkjandi endalok á leiknum fyrir Þórsara, sem sýndu mikinn karakter með að snúa hartnær töpuðum leik sér í vil. Oddur Gretarsson færði sig úr horninu í stöðu leikstjórnanda í seinni hálfleik og þá breyttist leikur liðsins. En líklega verður að teljast viðunandi að hafa þó fengið stig úr leiknum, miðað við hvernig staðan var orðin í seinni hálfleiknum.

Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn HK næstkomandi fimmtudag kl. 19.

Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 9 (3 víti), Kári Kristján Kristjánsson 5, Þórður Tandri Ágústsson 4, Aron Hólm Kristjánsson 3, Brynjar Hólm Grétarsson 3, Igor Chiseliov 3, Patrekur Guðni Þorbergsson 2, Þormar Sigurðsson 2, Arnór Þorri Þorsteinsson 1, Halldór Kristinn Harðarson 1, Hákon Ingi Halldórsson 1.

Varin skot: Patrekur Guðni Þorbergsson 4, Nikola Radovanovic 3.

Mörk FH: Símon Michael Guðjónsson 9 (7 víti), Jón Bjarni Ólafsson 6, Birkir Benediktsson 5, Brynjar Narfi Arndal 3, Garðar Ingi Sindrason 3, Ómar Darri Sigurgeirsson 3, Þórir Ingi Þorsteinsson 3, Daníel Freyr Andrésson 1, Ingvar Dagur Gunnarsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 13 (2 víti), Jón Þórarinn Þorsteinsson 1.

Staðan í deildinni

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz