Fara í efni
Körfuknattleikur

Daníel var hetja KA gegn Fram – MYNDIR

Sigurmarkið! Daníel Hafsteinsson skallar boltann eftir fyrirgjöf Hans Viktors Guðmundssonar þegar sex mínútna uppbótartími var tæplega hálfnaður í kvöld - og andartaki síðar lá boltinn í netinu. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA sigraði Fram 3:2 í Bestu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu á heimavelli í kvöld og færðist þar með úr neðsta sæti deildarinnar upp í það næst neðsta. KA er með átta stig en Fylkir, sem tapaði fyrir FH í kvöld, er á botninum með sjö stig.

Framarar höfðu forystu, 2:1, eftir fyrri hálfleik þar sem KA-menn voru heldur sterkari en gestirnir réðu ferðinni lengi vel í seinni hálfleik. Tóku nánast öll völd snemma og héldu þeim þar til um það bil 15 mínútur lifðu leiks að KA-strákarnir vöknuðu loks almennilega til lífsins. Þeim óx verulega ásmegin og Daníel Hafsteinsson skoraði tvívegis og tryggði KA sætan, langþráðan og gríðarlega mikilvægan sigur. KA hafði tapað þremur leikjum í röð í deildinni og ekki unnið síðan þeir lögðu Fylki á heimavelli 20. maí.

1:0 – SVEINN MARGEIR
Sveinn Margeir Hauksson kom KA yfir strax eftir átta mínútur með glæsilegu marki. Vinstri bakvörðurinn Birgir Baldvinsson átti þá háa, hárnákvæma sendingu inn fyrir vörn Fram, og Sveinn vippaði boltanum með fyrstu snertingu yfir markvörðinn. Virkilega vel gert og algjör draumabyrjun.

_ _ _

1:1 – KENNIE CHOPART
Það tók Framara ekki nema fáeinar mínútur að jafna. Varnarmaðurinn sterki, Kennie Chopart, sem kominn var inn í liðið á ný eftir eins og hálfs mánaðar fjarveru vegna meiðsla, skoraði eftir hornspyrnu Fred. Var illa valdaður í miðjum vítateignum og skoraði með þrumuskalla.

_ _ _

1:2 – KENNIE CHOPART
Framarar voru í hörkusókn á 36. mín. en KA-menn náðu að hreinsa yfir á vallarhelming gestanna, Ólafur Íshólm markvörður sendi boltann rakleiðis til baka og Steinþór Már starfsbróðir hans í KA-liðinu kom yst í vítateiginn og hugðist grípa boltann. Hann uggði ekki að sér, Chopart var mun ákveðnari, stökk upp á réttum tíma og skallaði boltann í tómt markið. Hroðaleg mistök Steinþórs Más.

_ _ _

SKIPTU SKÖPUM
Margnefndur Chopart er lykilmaður í liði Fram. Hann var farinn að kveinka sér í fyrri hálfleik, hóf þó þann seinni en gekk augljóslega ekki heill til skógar og fór af velli þegar aðeins tvær mínútur voru búnar af seinni hálfleik. Framarar söknuðu hans sárt í lokasprettinum.

Önnur breyting sem skipti sköpum um gang mála var gerð þegar hálftími var eftir. Daníel Hafsteinsson leysti þá fyrirliðann, Ásgeir Sigurgeirsson, af hólmi.

Segja má að Daníel hafi gert slagorð Bílaleigu Akureyrar að sínu; Þínar þarfir - okkar þjónusta, segir á auglýsingunni. Lið KA hafði mikla þörf fyrir Daníel í kvöld og hann bauð upp á afbragðs þjónustu og bráðnauðsynlega!

_ _ _

2:2 – DANÍEL HAFSTEINSSON
Daníel jafnaði leikinn á 78. mínútu. Hægri bakvörðurinn, Ingimar Torbjörnsson Stöle, sem kom inná nokkrum mínútum áður, átti fasta sendingu inn á markteig af hægri kantinum og Daníel skoraði af stuttu færi. Virtist koma boltanum í markið með einskonar mjaðmahykk!

_ _ _

3:2 – DANÍEL HAFSTEINSSON
Daníel var aftur á ferðinni þegar tvær mínútur voru liðnar af sex mínútna uppbótartíma. Varnarmaðurinn Hans Viktor Guðmundsson fékk boltann út á hægri kanti, sendi mjög vel inn á markteiginn þar sem Daníel skoraði með glæsilegum skalla; hann hafði betur í baráttu við tvo varnarmenn og hamraði boltann efst í hægra hornið. Gríðarlega vel gert.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna

Smellið hér til að sjá stöðuna í deildinni