Fara í efni
Knattspyrna

Þór með heimaleik í dag, Þór/KA fer í Víkina

Kristófer Kristjánsson í baráttu við leikmenn Þróttar í fyrstu umferðinni. Agnes Birta Stefánsdóttir, Hulda Björg Hannesdóttir og Margrét Árnadóttir fagna einu af fjórum mörkum liðsins í útisigri gegn FH í 2. umferð Bestu deildarinnar. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnulið Þórs og Þórs/KA verða bæði í eldlínunni í dag. Þórsarar spila sinn fyrsta heimaleik í Lengjudeildinni þegar þeir fá Mosfellinga í Aftureldingu í heimsókn í Bogann og Þór/KA heimsækir bikarmeistara Víkings í Fossvoginn í fjórðu umferð Bestu deildarinnar.

Þórsvöllurinn (VÍS völlurinn) er ekki orðinn leikhæfur þannig að KSÍ veitti undanþágu til að heimaleikir Þórs í Lengjudeild karla og Þórs/KA í Bestu deild kvenna færu fram í Boganum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum þar til völlurinn verður klár. Ekki hefur verið gefið út hvenær áætlað er að það verði, en eftir leikinn í dag eru næstu heimaleikir liðanna þriðjudaginn 14. maí hjá Þór/KA, en ekki fyrr en laugardaginn 25. maí hjá Þórsurum. 

  • Þórsarar taka á móti liði Aftureldingar í Boganum í dag og hefst leikurinn kl. 16.

Bæði liðin gerðu 1-1 jafntefli í fyrstu umferðinni, Þór gegn Þrótti á útivelli og Afturelding gegn Gróttu á heimavelli. Bæði lið því hungruð í sigur í dag. Afturelding varð í 2. sæti Lengjudeildar karla í fyrra, en missti af sæti í Bestu deildinni eftir 0-1 tap fyrir Vestra í úrslitaleik umspilsins. Afturelding vann báðar viðureignir þessara liða í Lengjudeildinni í fyrra, 3-1 á Akureyri og 1-0 í Mosfellsbænum.

  • Þór/KA sækir Víkinga heim í Fossvoginn og hefst sá leikur einnig kl. 16.

Þór/KA hefur byrjað mótið ágætlega og er með sex stig eftir fyrstu þrjá leikina, situr í 3. sætinu á eftir Val og Breiðabliki. Víkingar eru í 5. sætinu með fjögur stig, en liðið fékk skell að Hlíðarenda í þriðju umferðinni, 2-7 tap gegn Íslandsmeisturum Vals, á meðan Þór/KA vann 2-1 sigur á Þrótti í Boganum. Þór/KA og Víkingur mættust í A-deild Lengjubikarsins í vetur þar sem Þór/KA vann öruggan 5-0 sigur. 

Við þetta má svo bæta að Sauðkrækingar munu væntanlega streyma til Akureyrar í dag því lið Tindastóls í Bestu deild kvenna getur ekki spilað á Sauðárkróksvelli eins og ástandið á honum er í dag eftir leysingar í lok apríl. Leikur Tindastóls og Fylkis í Bestu deild kvenna fer því fram á KA-svæðinu, Greifavellinum, og hefst á sama tíma og leikur Þórs og Aftureldingar í Boganum, kl. 16.