Fara í efni
Knattspyrna

Snilld Hallgríms, mjög sterk vörn, þrjú stig

Hallgrímur Mar Steingrímsson gerði bæði mörk KA í gríðarlega mikilvægum sigri á KR í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn unnu gríðarlega mikilvægan sigur á KR-ingum á útivelli í dag, 2:1, og komust með því upp úr fallsæti Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. KA er með 15 stig eftir 14 leiki eins og ÍBV, FH er stigi á eftir í næst neðst sæti en á reyndar leik til góða gegn Stjörnunni á morgun. ÍA er neðst með 12 stig.

Hallgrímur Mar Steingrímsson kom KA í 2:0 um miðjan seinni hálfleik – skoraði fyrst með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu og síðan með skoti úr miðjum vítateig eftir glæsilegan undirbúning Ingimars Stöle, áður en Aron Sigurðarson minnkaði muninn.

KR-ingar hafa boðið upp á ótrúlega leiki í sumar en ekki er hægt að segja að liðið sé óútreiknlegt; það vill hafa boltann og sækja, helst stanslaust, en hefðbundinn varnarleikur hefur mætt afgangi. Enda hafði KR skorað 34 mörk í leikjunum 13 og fengið jafn mörg á sig.

Tölfræði úr leikjum KR í sumar hlýtur að vera einstök á heimsvísu og KA-menn voru eins vel búnir undir það sem von var á og kostur er. Léku mjög sterkan varnarleik og tókst að halda KR-ingum að mestu leyti í skefjum. KR var rúmlega 70% með boltann í fyrri hálfleik en KA fékk tvö langbestu færin; Jakob Snær Árnason skallaði á markið úr dauðafæri en skallinn var laus og markmaðurinn var ekki í neinum vandræðum, og síðan skaut Hallgrímur Mar hárfínt framhjá.

Seinni hálfleikurinn var svipaður þeim fyrri. KR-ingar miklu meira með boltann, KA-menn vörðust vel og það bar ríkulegan ávöxt. Brotið var á Hallgrími Mar rétt utan vítateigs KA á 65. mínútu, hann tók aukaspyrnuna vitaskuld sjálfur og skoraði með stórglæsilegu skoti. Vonandi er hann kominn á flug; galdrarnir eru enn í skóm Hallgríms, og verða vonandi lengi enn. Hann skoraði svo aftur aðeins fjórum mínútum síðar úr miðjum vítateignum eftir magnaðan sprett og góða sendingu Ingimars Stöle.

KA var þar með komið í mjög vænlega stöðu – en vænleg staða skiptir reyndar sjaldnast máli á móti KR! Enda svöruðu heimamenn fljótlega. Aron Sigurðarson skoraði þá með föstu skoti fyrir utan teig og undir lokin má segja að KR-ingar hafi tvisvar verið nálægt því að skora. William Tönning, markvörður KA, sem náði sér sannarlega ekki á strik í síðasta leik, lék gríðarlega vel í dag og varði frábærlega undir lokin; fyrst hnitmiðað þrumuskot Gabríels Hrannars Eyjólfssonar utan vítateigs og síðan lokaði hann vel á Jóhannes Kristin Bjarnason sem komst einn í gegn.

Liðsheild KA var mjög öflug í dag. KA-menn urðu fyrir blóðtöku snemma leiks þegar Ásgeir Sigurgeirsson fór af velli vegna meiðsla en það hafði ekki áhrif til hins verra. 

KA er með 15 stig eftir 14 leiki sem fyrr segir. KA hefur gert 14 mörk en fengið á sig 26. Tölfræði er fróðlegt fyrirbæri og vert að nefna að KR hefur nú gert 35 mörk í 14 leikjum og fengið á sig 36. Liðið er með 16 stig, aðeins einu meira en KA.

Leikskýrslan

Staðan í deildinni