KA-ÍA í dag – Síðasti heimaleikur KA í sumar

Næst síðasta umferð neðri hluta Bestu deildar Íslandsmóts karla í knattspyrnu fer fram í dag. KA-menn fá Akurnesinga í heimsókn, KR og ÍBV mætast í Reykjavík og Afturelding tekur á móti Vestra í Mosfellsbæ.
KA er ekki í fallhættu en Skagamenn ekki alveg sloppnir. Þeir hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu, hafa unnið alla þrjá leikina til þessa í neðri hlutanum og samtals fimm leiki í röð. Skagamenn eru í bestri stöðu þeirra liða sem enn eiga á hættu að falla. Fari allt á versta veg fyrir ÍA gæti liðið fallið á markamun, en liðið getur aftur á móti sloppið endanlega við fall með því að ná í stig í dag.
- Besta deild karla í knattspyrnu, neðri hluti
Greifavöllurinn kl. 14
KA - ÍA
ÍA vann KA 3:0 í fyrri leik liðanna í hefðbundinni deildarkeppni í byrjun maí á Akranesi en KA vann heimaleikinn 2:0, 19. júlí. Jóan Símun Edmundsson og Hallgrímur Mar Steingrímsson gerðu mörkin þann dag.
KA er í næstefsta sæti neðri hlutans, 8. sæti yfir alla deildina, þegar tveimur umferðum er ólokið. KA hefur 33 stig, en ÍA með 31 stig, sæti neðar en KA. Vestri er með 28 stig, Afturelding 26 og KR er neðst með 25 stig.
Lokaumferðin verður á laugardegi um næstu helgi:
- ÍBV - KA
- Vestri - KR
- ÍA - Afturelding
Dean Martin aðstoðarþjálfari ÍA, til vinstri, er fyrrverandi leikmaður og þjálfari KA, og aðalþjálfarinn, Lárus Orri Sigurðsson, er fyrrverandi leikmaður og þjálfari Þórs. Hér fylgjast þeir með sínum mönnum í leiknum gegn KA á Greifavellinum í júlí. Mynd: Ármann Hinrik