Fara í efni
Knattspyrna

Handbolti: Tveggja rétta veisla í kvöld

Tveggja rétta handboltaveisla er í boði á Akureyri í kvöld, en þó með þannig tímasetningum að erfitt er fyrir áhugafólk um handknattleik að njóta beggja réttanna. Valið stendur á milli þess að fara á leik í KA-heimilinu kl. 18:30 eða í Höllinni kl. 19. KA tekur á móti Val og Þór tekur á móti HK í Olísdeild karla.

KA hefur byrjað tímabilið vel. Nú síðast unnu þeir Íslandsmeistara Fram á þeirra heimavelli og eru í 4. sæti deildarinnar með átta stig, jafnir Val að stigum og aðeins tveimur stigum á eftir liðunum í tveimur efstu sætunum, Aftureldingu og Haukum. Í kvöld eru það Valsmenn sem mæta í KA-heimilið og takast á við KA, en þeir mörðu eins marks sigur á Þór í síðustu ferð sinni norður.

  • Olísdeild karla í handknattleik
    KA-heimilið kl. 18:30
    KA - Valur

- - -

Þórsarar eru í 11. og næstneðsta sæti Olísdeildar karla í handknattleik með fjögur stig að loknum sex umferðum, jafnir HK og Fram að stigum. Þeir hafa unnið einn leik og gert tvö jafnefli, en tapað þremur. Þeir voru hársbreidd frá því að vinna FH í Kaplakrika í síðustu umferð eftir að hafa lent átta mörkum undir og náð svo forystunni á lokamínútunni, en FH náði að jafna á síðustu sekúndum leiksins þannig að liðin skiptu með sér stigunum. Fyrr í haust töpuðu þeir með eins marks mun fyrir stjörnum prýddu liði Vals.

Þórsarar taka á móti HK í Höllinni í kvöld og ættu að eiga góða möguleika á sigri. 

  • Olísdeild karla í handknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19
    Þór - HK