Fara í efni
Knattspyrna

Fá ekki þjálfara og hætta með áhaldafimleika

Myndir af Instagram reikningi fimleikadeildar KA.

Stjórn fimleikadeildar KA hefur ákveðið að hætta með áhaldafimleika vegna þess að ekki hefur tekist að ráða þjálfara til starfa. Þetta kemur fram í tilkynningu sem deildin sendi foreldrum og forráðamönnum iðkenda fyrr í dag þar sem upplýst er að stefnt sé að því að efla hópfimleikastarf hjá deildinni og iðkendum í áhaldafimleikum sé velkomið að færa sig yfir í hópfimleika.

„Eins og fram hefur komið hefur Siarhei Hubski sagt upp störfum og mun ljúka starfi sínu hjá okkur um áramótin. Undanfarna mánuði höfum við unnið markvisst að því að finna nýjan þjálfara og lögðum extra í það eftir að ljóst var að vantaði eftirmann til að sinna hans starfi, en sú leit hefur ekki borið árangur,“ segir í tilkynningunni.

Fimleikasalurinn glæsilegi í íþróttamiðstöð Giljaskóla. Mynd af Facebook síðu fimleikadeildar KA.

Þar segir ennfremur: „Að teknu tilliti til ráðlegginga frá FSÍ [Fimleikasambandi Íslands] og í samráði við stjórnendur KA, hefur verið tekin afar erfið ákvörðun um að leggja niður áhaldafimleikadeildina frá og með áramótum. Þetta er gert með miklum trega, enda hefur starfið verið mikilvægt og skilað góðum árangri bæði fyrir iðkendur og félagið. Í kjölfarið var Amir, yfirþjálfara hópfimleika og Söru, þjálfara í áhaldafimleikum einnig sagt upp. Við munum nýta næstu vikur til að endurskipuleggja fimleikastarfið hjá félaginu með það að markmiði að byggja upp sterkt og sjálfbært hópfimleikastarf. Iðkendum í áhaldafimleikum er velkomið að færa sig yfir í hópfimleika. Við viljum þakka ykkur foreldrum fyrir frábært samstarf og skilning á þessum breytingum. “

Fimleikafélag Akureyrar var lagt niður í þáverandi mynd 1. desember 2023, og sameinað KA. Fimleikadeild KA var þá stofnuð og öll starfsemi færðist þangað. Mjög góð aðstaða er til fimleikaaiðkunar í Íþróttamiðstöð Giljaskóla sem tekin var í notkun haustið 2010.