Fara í efni
Knattspyrna

Bæjarslagur af bestu gerð – MYNDIR

Bruno Bernat markmaður KA var magnaður og sýndi oft skemmtileg tilþrif í leiknum en hér sá Þórsarinn Brynjar Hólm Grétarsson við honum; setti boltann í gólfið og í netið. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA vann Þór 32:28 í efstu deild Íslandsmótsins í handbolta, Olísdeildinni, í KA-heimilinu í fyrrakvöld eins og akureyri.net greindi frá þá um kvöldið. Þetta var í fyrsta skipti í fjögur ár sem liðin mætast á þeim vettvangi og stemningin var slík að fjöldinn hafði augljóslega beðið lengi eftir bæjarslag af þessu tagi; fjörið minnti á gömlu, góðu dagana ...

Stuðningsmenn beggja liða voru komnir í banastuð löngu fyrir leik og leikmenn voru vel stemmdir eins og vænta mátti.

Fyrri hálfleikur var hnífjafn, staðan að honum loknum var 13:12 KA í hag og frábær byrjun heimaliðsins í seinni hálfleik hafði sitt að segja. KA-strákarnir komu gríðarlega vel stemmdir til seinni hálfleiksins, gerðu fyrstu fjögur mörkin og náðu fljótlega fimm marka forystu. Þórsarar náðu aldrei að brúa bilið, náðu ekki að fylgja eftir mögnuðum varnarleik fyrri hluta leiksins og þar munaði mikið um að Þórður Tandri Ágústsson lék aðeins í sókninni lengi framan af. Þeim öfluga strák var vísað tvisvar af velli í fyrri hálfleik og hefði lokið leik við þá þriðju þannig að Birkelund þjálfari vildi ekki taka neina áhættu lengi vel. 

Sástu þetta vel? Tveggja mínútna brottvísun eða eitthvað meira? Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson dæmdu leikinn á fimmtudaginn.

Brynjar Hólm Grétarsson var mjög öflugur í Þórsliðinu, bæði í sókn og vörn, og fleiri léku vel en miklu máli skipti að aðal markvörður Þórs, Nikola Radovanovic, náði sér ekki á strik. Bruno Bernat, starfsbróðir hans hjá KA, fór hins vegar hamförum; varði hvað eftir annað af snilld auk þess sem Guðmundur Helgi Imsland leysti hann af hólmi um stund og varði m.a. tvö vítaskot. Liðsheild KA var öflugri þegar á reyndi en óhætt er að segja að Bjarni Ófeigur Valdimarson sé þar fremstur í flokki. Magnaður leikmaður, bæði í sókn og vörn, og að þessu sinni réðu Þórsarar hreinlega ekkert við hann.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var frábær í KA-liðinu eins og svo oft áður í vetur; gerði 14 mörk í leiknum og átti sjö stoðsendingar.

Að leikslokum mátti sjá myndir og textann BÆRINN ER GULUR á stórum skjá við norðurenda salarins. Gulklæddir KA-menn fögnuðu vel og lengi á meðan rauðklæddir Þórsarar yfirgáfu húsið, fjarri því glaðir í bragði en nú gildir hið fornkveðna: Eigi skal gráta Björn bónda, heldur safna liði! Hinn mikli rígur milli stuðningsmanna félaganna sem allir þekkja og margir hafa gaman af setti skemmtilegan svip á kvöldið í KA-heimilinu enda hið besta mál – upp að vissu marki ...

Gulir njóta þess að stríða rauðum á næstunni en framundan eru ýmis verkefni beggja liða, KA fær Selfoss í heimsókn næsta fimmtudag og um næstu helgi er á dagskrá mikilvægur leikur Þórs við ÍR í höfuðborginni. Jólin er á næstu leyti og Evrópumót landsliða í janúar en engu að síður má reikna með að allir sem vörðu nýliðnu fimmtudagskvöldi í KA-heimilinu, og margir fleiri, séu þegar búnir að merkja við fimmtudagskvöldið 12. mars í dagatalinu. Þá taka Þórsarar á móti KA-mönnum í Íþróttahöllinni og gera má ráð fyrir annarri kvöldskemmtan í hæsta gæðaflokki!

Gulklæddir KA-menn fögnuðu vel og lengi eftir leik á meðan rauðklæddir Þórsarar yfirgáfu húsið, fjarri því glaðir í bragði ...