Fara í efni
Kjarnaskógur

Leitað á gestum Sjallans um Versló

Málmleitartæki verður notað til þess að leita á gestum Sjallans um helgina.

Leitað verður á gestum sem sækja viðburði í Sjallanum um helgina, bæði með málmleitartæki og svo verður kíkt í töskur. Í tilkynningu á Facebook síðu Sjallans segir að starfsfólk og dyraverðir hafi fullan rétt til þess að neita aðilum inn í húsið ef þeir vilja ekki gangast undir leit. Ef óæskilegir hlutir finnist í leitinni verður það tilkynnt til lögreglu.

„Þetta eru bara fyrirbyggjandi aðgerðir, við viljum að fólk geti skemmt sér fallega,“ segir Halldór Kristinn Harðarsson, eigandi Sjallans við blaðamann Akureyri.net. „Við erum alltaf að læra og breyta og bæta og aðlaga okkur nýjum tímum og þeim áskorunum sem mæta okkur. Það er stór helgi framundan og okkur langar að gera þetta vel, þetta er ekkert sem einhver þarf að hræðast, heldur bara einn partur af því að tryggja öryggi þegar margir koma saman.“

Sjallinn býður upp á dyravörslu og gæslu í keyptri þjónustu, undir nafninu 'Sjallinn Security', og nóg hefur verið að gera hjá þeim í sumar á bæjarhátíðum, árshátíðum, böllum o.fl. Um síðustu helgi stóðu þeir vaktina á Mærudagsballinu á Húsavík, og samskonar leit var viðhöfð þar, og segir enn fremur í tilkynningunni, að gestir hafi tekið vel í það. 

Varað er við að það gæti tekið lengri tíma fyrir fólk að komast inn um helgina, þar sem leitin geti tafið röðina, en forsvarsfólk Sjallans ítrekar að öryggi gestanna sé þeim mikilvægt, og óska eftir skilningi. 

Stjörnum prýdd dagskrá

Ætla má að fjöldi manns leggi leið sína í Sjallann, en annað kvöld, laugardaginn 2. ágúst, verða Birnir, Páll Óskar og Emmsjé Gauti á sviðinu sögufræga. Sunnudagskvöldið 3. ágúst býður Sjallinn svo upp á tónleika með Herra Hnetusmjör, Kristmundi Axel, Friðriki Dór, Saint Pete og Aroni Can.

 

Mynd: Facebook síða Sjallans