Fara í efni
KA/Þór

Tap og sigur hjá blakliðum KA í dag

KA-konur fögnuðu sigri í dag. Myndin er frá fögnuði eftir sigur í meistarakeppni Blaksambandsins. Myndin birtist upphaflega á Facebook-síðu KA.

Kvennalið KA í blaki er áfram ósigrað á toppi Unbroken-deildarinnar eftir sigur á Þrótti R. í dag, 3-1. Karlaliðið missti toppsætið til Hvergerðinga fyrr í dag þegar liðið tapaði 1-3 fyrir Þrótti R. 

Hvergerðingar tóku toppsætið

Karlalið KA mátti játa sig sigrað í dag þegar KA mætti Þrótti í KA-heimilinu. Gestirnir unnu fyrstu hrinuna, en KA-menn jöfnuðu. Þriðja og fjórða hrina voru jafnar og spennandi, en duttu báðar Þróttara megin og sigurinn þar með. KA lenti nokkrum stigum undir í 3. og 4. hrinu, en náði að saxa á forskotið. Þeir höfðu eins stigs forystu undir lok fjórðu hrinunnar, en Þróttarar skoruðu þrjú síðustu stigin og unnu hrinuna eftir upphækun og leikinn þar með. 

Með tapinu í dag missti KA toppsæti Unbroken-deildarinnar til Hvergerðinga í Hamri sem unnu Þrótt Fjarðabyggð í dag. Hamar tyllti sér í toppsætið með 18 stig, en KA og Þróttur R. eru jöfn að stigum, bæði með 15. KA-liðið hefur tapað fæstum hrinum liðanna í deildinni. Fimm sigurleikir enduðu allir 3-0, en tveir tapleikir 1-3 og liðið því aðeins tapað sex hrinum.

Tóku málin í sínar hendur eftir spennu

Kvennalið KA er áfram á toppi Toppdeildarinnar með fullt hús stiga eftir sigur á Þrótti R. í dag. Eftir tvær jafnar og spennandi hrinur tóku KA-konur leikinn í sínar hendur. KA er því áfram með góða forystu í Toppdeildinni, 18 stig að loknum sex leikjum. Völsungur skaust í 2. sætið með 3-0 útisigri á Aftureldingu í Mosfellsbænum.

Stutt er síðan kvennalið KA tapaði sinni fyrstu hrinu á Íslandsmótinu á þessu tímabili, en liðið vann fyrstu fjóra leiki sína 3-0 og svo 3-1 gegn Aftureldingu á dögunum. Leikurinn í dag hófst hins vegar með annarri taphrinu liðsins í vetur eftir upphækkun, 24-26. Þróttarar byrjuðu betur í annarri hrinu, staðan orðin 5-12, en KA-liðið sótti á og lokakafli hrinunnar varð æsispennandi og náðu KA-konur að kreista fram sigur eftir upphækkun, 30-28. Næstu tvær hrinur voru aftur á móti ekki eins jafnar og KA vann 3. og 4. hrinuna af öryggi og leikinn þar með, 3-1.