„Stelpurnar okkar“ í átta liða úrslit bikarsins?
KA/Þór tekur á móti liði Selfoss í dag í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta, Powerade-bikarnum, eins og keppnin kallast. Leikurinn hefst kl. 18:30 í KA-heimilinu.
Með sigri komast „Stelpurnar okkar“ í átta liða úrslit. Einungis 12 lið taka þátt í 16 liða úrslitunum því Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar Hauka sitja hjá og koma inn í átta liða úrslitin.
- Powerade-bikarinn í handknattleik kvenna
KA-heimilið kl. 18:30
KA/Þór - Selfoss
Nýliðar KA/Þórs eru í 2. sæti Olís deildarinnar, efstu deildar íslandsmótsins, með átta stig að loknum sex leikjum, en Selfyssingar eru í sjöunda og næst neðsta sæti með tvö stig, einnig eftir sex leiki.
Verði allt með felldu ætti KA/Þór að leggja andstæðing dagsins, miðað við stöðuna í deildinni en ekkert er sjálfgefið í íþróttum og vert að nefna að liðin hafa mæst einu sinni í vetur og sú viðureign var mjög jöfn, en reyndar ótrúlega sveiflukennd.
Það var í þriðju umferð Olísdeildarinnar og „Stelpurnar okkar“ fögnuðu sigri, 27:25, á Selfossi, 24. september. KA/Þór hafði eins marks forystu í hálfleik og jók muninn í fimm mörk snemma í seinni hálfleik en þá fóru heimamenn í gang, gerðu níu mörk gegn einu á 15 mínútum og þegar 10 mínútur voru eftir var staðan 25:22 fyrir Selfyssinga. Þá skipuðust veður skjótt í lofti á ný og KA/Þór gerði fimm síðustu mörkin.