Fara í efni
KA/Þór

María Ólafsdóttir Gros semur við Djurgården

María Catharina Ólafsdóttir Gros komin í treyju Djurgården. Myndirnar eru af Facebook-síðu félagsins.

Akureyringurinn María Ólafsdóttir Gros, fyrrum leikmaður Þórs/KA, hefur samið við sænska úrvalsdeildarfélagið Djurgården IF. Hún skrifaði undir samning við félagið í gær og var tilkynnt á miðlum félagsins í morgun. María kemur til félagsins frá Linköping FC þar sem hún hefur verið frá sumrinu 2024, en liðið féll úr sænsku úrvalsdeildinni, Damallsvenskan, í haust. Linköping kvaddi Maríu með tilkynningu í gær og nú er ljóst að María verður áfram í úrvalsdeildinni. 

„Þetta er ótrúlega góð tilfinning og ég er mjög spennt. Ég trúi því virkilega að ég geti hjálpað liðinu að ná markmiðum sínum og þetta er góður staður fyrir mig til að vaxa sem knattspyrnukona,“ segir María í tilkynningu Djurgården IF. María hefur fengið treyjunúmerið 10 hjá nýja félaginu. Í kynningu félagsins segir María einnig: „Ég myndi segja að ég sé öflug, góð í einvígi og vil skapa færi og skora mörk. Auk þess legg ég líka hart að mér í varnarleik. Ég get spilað mismunandi stöður og geri alltaf mitt besta, hvar sem ég er.“

Djurgården er staðsett í Stokkhólmi, en liðið endaði í 4. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar í haust með 50 stig úr 26 leikjum, einu sæti frá því að komast í Evrópukeppni.

Hér að neðan er stutt viðtal við Maríu sem birtist á Facebook-síðu Djurgården IF.