Fara í efni
KA/Þór

Andri Snær og Stefán leiða saman hesta sína

Andri Snær Stefánsson þjálfari KA á æfingu, í fjarska Magnús Dagur Jónatansson. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA-menn sækja lið Aftureldingar heim í kvöld í þriðju umferð Olísdeildarinnar, efstu deildar Íslandsmóts karla í handbolta. Leikurinn í Mosfellsbæ hefst klukkan 19.00.

Þjálfari Aftureldingar er KA-maðurinn Stefán Árnason sem þjálfaði lengi hjá félaginu, lengstum yngri flokka en einnig meistaraflokk um tíma. Stefán var aðstoðarþjálfari Gunnars Magnússonar hjá Aftureldingu en tók við sem aðalþjálfari í sumar þegar Gunnar kvaddi Mosfellinga og tók við liði Hauka.

KA er með tvö stig að loknum tveimur leikjum; liðið vann Selfoss á útivelli í fyrstu umferðinni en tapaði á heimavelli fyrir Haukum um síðustu helgi. Afturelding er hins vegar með fjögur stig eins og Fram og ÍBV, hefur unnið báða leikina til þess og báða á útivelli, HK í síðasta leik en í fyrstu umferðinni báru Stefán og lærisveinar hans sigurorð af Haukum undir stjórn hans gamla samstarfsmanns, Gunnars Magnússonar.

  • Leikir kvöldsins verða sendir út á Handboltapassanum.
  • Hægt er að fylgjast með gangi máli á HBStatz tölfræðisíðunni á vef HSÍ.