Fara í efni
Kaldbakur

Konungskoman 1907: Ljósmynd og póstkort

Frummynd eftir glerplötu Hallgríms Einarssonar frá Konungskomunni 1907 (MSA M3-4255).

SÖFNIN OKKAR – 88

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Fyrr á þessu ári var fjallað um konungsglas í eigu Minjasafnsins á Akureyri úr fórum Magnúsar Kristjánssonar alþingismanns. Líkt og aðrir þingmenn fékk Magnús glasið að gjöf frá Friðriki VIII Danakonungi er hann kom í heimsókn til Íslands árið 1907. Á heimleiðinni til Danmerkur kom konungur og hans fylgdarlið við á höfuðstöðum landsbyggðarinnar, Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði.

Að morgni 13. ágúst komu skip konungs siglandi inn Eyjafjörðinn. Á Torfunefsbryggju, sem þá var enn í byggingu, var búið að koma upp stóru skrauthliði. Á bryggjunni var fjöldi manns saman komin til að taka á móti konungi. Fyrst var komið við í Samkomuhúsinu á Barðsnefi en síðan farið á hestum fram í fjörð að Hrafnagili. Þar hafði verið reistur mikill skáli, 32 álnir að lengd en 14 á breidd. Þar var snæddur morgunverður og ræður haldnar. Síðan var haldið aftur til Akureyrar, komið við á spítala staðarins og um kvöldið „hafði konungur bæjarstjórnina og ýmsa aðra bæjarbúa í boði sínu“ líkt og segir í Norðurlandi 17. ágúst 1907.

Sama mynd Hallgríms Einarssonar og að ofan – hér á póstkorti.

Töluvert af ljósmyndum hefur varðveist frá Konungskomunni 1907 og hér ætlum við að fjalla um tvær þeirra. Tveir af ljósmyndurum Akureyrar, Hallgrímur Einarsson og Jón J. Dahlmann tóku báðir myndir við þetta tækifæri. Þegar Friðrik VIII gekk niður tröppur Samkomuhússins stóðu þeir Hallgrímur og Jón hlið við hlið og mynduðu. Einungis augnablik eða um ein sekúnda er á milli myndanna, en konungur er einni tröppu neðar á mynd Jóns. Báðir notuðu þeir þessar myndir á póstkort og voru þær til sölu ásamt fleiri myndum frá Konungskomunni. Glerplata eða frummynd Hallgríms hefur varðveist og er hún á Ljósmyndadeild Minjasafnsins á Akureyri, en það hefur glerplata Jóns hins vegar ekki gert. Hér birtast bæði glerplata Hallgríms sem og póstkortin tvö. Líkt og sjá má er mikill fjöldi fólks samankomin í brekkunni norðan við húsið. Allir eru í sínu fínasta pússi og sumir taka ofan fyrir konunginum. Þá má sjá á fánunum að norðanátt hefur verið á Akureyri 13. ágúst 1907.

Póstkort frá Konungskomunni 1907, tekin augnabliki síðar en mynd Hallgríms af Jóni J. Dahlmann ljósmyndara á Akureyri. Hvorki þessi né aðrar myndir hans frá Konungskomunni 1907 hafa varðveist svo vitað sé.

Það er áhugavert að bera saman glerplötuna og póstkortin. Flest allir eru í sömu stellingum á myndum Hallgríms og Jóns enda tíminn á milli myndanna tveggja mjög stuttur svo sem áður segir. Það vekur athygli þegar glerplata Hallgríms er borin saman við póstkortið hans að nokkuð hefur verið skorið af myndinni á póstkortinu, einkum að neðan. Að lokum má nefna að mjög líklegt er að þennan dag sem Friðrik VIII var á Akureyri hafi Jón tekið fleiri myndir en þær sem rötuðu á póstkort. Myndirnar hafa því miður ekki varðveist svo vitað sé. Einu heimildirnar sem við höfum um ljósmyndatöku Jóns þennan dag eru því póstkortin hans.