Fara í efni
KA

Þór/KA burstaði Víking og KA-menn lögðu ÍA

Hulda Björg Hannesdóttir og Amalía Árnadóttir skoruðu báðar fyrir Þór/KA í dag og Ásgeir Sigurgeirsson gerði bæði mörk KA. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA vann bikarmeistara Víkings 5:0 í Lengjubikar kvenna í knattspyrnu í Boganum í dag og KA vann ÍA 2:1 á sama stað í kvöld í Lengjubikar karla.

Hulda Björg Hannesdóttir gerði fyrsta markið í viðureign Þórs/KA og Víkings eftir stundarfjórðung en Stelpurnar okkar skoruðu fjórum sinnum í seinni hálfleiknum; fyrst Amalía Árnadóttir eftir klukkutíma leik og síðan komu þrjú mörk á síðustu 10 mínútunum; fyrst skoraði Sandra María Jessen, þá Iðunn Rán Gunnarsdóttir og síðan Sonja Björg Sigurðardóttir.

Þór/KA hefur unnið báða leiki sína í keppninni til þessa. Áður höfðu stelpurnar burstað ÍBV 7:0.
 
Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.

Hinrik Harðarson tók forystuna fyrir Akurnesinga í leiknum gegn KA þegar 25 mínútur voru liðnar. Eftir rúmlega hálftíma fékk Skagamaðurinn Arnór Smárason að líta gula spjaldið í annað skipti á skömmum tíma og var þar með vikið af velli. Ásgeir Sigurgeirsson fyrirliði KA jafnaði metin á lokasekúndum fyrri hálfleiksins og hann skoraði aftur þegar tæplega kortér var liðið af seinni hálfleik. Reyndist það sigurmarkið.

KA hefur þar með unnið tvo leiki í keppninni en tapað einum og er með sex stig.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.