Fara í efni
KA

Stjarnan hafði betur gegn Þór/KA – MYNDIR

Hulda Björg Hannesdóttir skorar með glæsilegum skalla gegn Stjörnunni í gær - fyrsta mark leiksins. Ljósmynd: Þórir Tryggvason

Þór/KA tapaði 3:1 fyrir Stjörnunni á heimavelli í gær efri hluta Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Eftir þau úrslit eiga Stelpurnar okkar ekki lengur möguleika á sæti í Evrópukeppni næsta sumar.

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna á vef KSÍ
_ _ _

1:0 – HULDA BJÖRG SKORAR
Jakobína Hjörvarsdóttir tók hornspyrnu frá hægri þegar 40 mín. voru búnar af leiknum. Spyrnan heppnaðist ekki sérlega vel og Andra Mist Pálsdóttir skallaði frá – beint til Jakobínu, sem átti þá mjög góða fyrirgjöf og Hulda Björg Hannesdóttir skallaði boltann í mark Stjörnunnar; sneiddi hann glæsilega í fjærhornið. Þetta var annað mark Huldu Bjargar í Bestu deildinni í sumar, hið fyrra var einnig gegn Stjörnunni á VÍS-vellinum (Þórsvellinum), í 3:3 jafntefli í júní, þegar hún skoraði úr vítaspyrnu.


Ljósmyndir: Þórir Tryggvason
_ _ _

DAUÐAFÆRI FORGÖRÐUM
Þór/KA fékk sannkallað dauðafæri til að komast í 2:0 á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Hulda Ósk Jónsdóttir slapp ein í gegnum vörn Stjörnunnar en hafði að líkindum of mikinn tíma til að hugsa málið ... Hulda lék inn á teig, hikaði eitt andartak áður en hún hugðist senda boltann í netið vinstra megin við Erin McLeod markvörð en sú kanadíska náði að verja. Boltinn hrökk til Karenar Maríu Sigurgeirsdóttir sem brást líka bogalistin; hitti ekki opið markið. Ekki að undra að stelpurnar trúðu vart sínum eigin augum.


_ _ _

ANDREA MIST JAFNAR
Fljótlega eftir dauðafærið sem áður er lýst jafnaði Stjarnan. Þar var á ferðinni Andrea Mist Pálsdóttir (lengst til vinstri á myndinni) sem skoraði gegn sínum gömlu félögum. Eftir gott samspil Jasmínar Erlu Ingadótturog Betsy Doon Hassett sendi sú síðarnefnda á Andreu Mist sem skoraði af stuttu færi.


_ _ _

HULDA KEMUR STJÖRNUNNI YFIR
Hulda Hrund Arnarsdóttir, sem kom af varamannabekknum á 59. mínútu kom Stjörnunni yfir 10 mín. síðar. Hún fékk boltann langt úti á velli, lék á nokkra varnarmenn Þórs/KA og skoraði með góðu skoti.


_ _ _

HULDA SKORAR AFTUR
Hulda Hrund skoraði aftur á 87. mín. Stjarnan fékk hornspyrnu og þegar boltinn kom fyrir markið var hún óvölduð í miðjum vítateignum  og þrumaði boltanum í mitt markið. Hulda fagnar hér að neðan ásamt Amöndu Mist.

_ _ _