Fara í efni
KA

Spennandi skemmtun er KA vann Stjörnuna

Einar Rafn Eiðsson, lengst til vinstri, nýbúinn að hleypa af og boltinn um það bil að lenda í Stjörnumarkinu. Þetta var sigurmarkið hálfri mínútu fyrir leikslok. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

KA vann Stjörnuna 27:26 eftir mikla spennu í KA-heimilinu í kvöld, í Olísdeildinni í handbolta, efstu deild Íslandsmótsins. KA-menn hafa þar með unnið tvo leiki og gert tvö jafntefli í fyrstu fjórum umferðunum.

Einar Rafn Eiðsson gerði sigurmark KA með þrumuskoti frá punktalínu þegar hálf mínúta var eftir.

Viðureign kvöldsins var í jafnvægi allan tímann. KA hafði tveggja marka forskot í hálfleik, 17:15, en Stjarnan náði að jafna snemma í seinni hálfleik, 18:18, og jafnt var á nánast öllum tölum eftir það.

Magnús Dagur Jónatansson, til vinstri, gerði 5 mörk í leiknum og Dagur Árni Heimisson 6. Þeir eru aðeins 16 ára en ótrúlega þroskaðir leikmenn miðað við aldur.

Þegar 10 mínútur voru eftir kom Grímur Hergeirsson gestunum tveimur mörkum yfir, 25:23, en Stjarnan gerði svo ekki nema eitt mark til viðbótar, þegar um þrjár mínútur voru eftir.

Einar Rafn gerði 24. mark KA úr víti á 51. mín. og töluvert óðagot var svo í leikmönnum næstu mínútur. Jóhann Geir Sævarsson jafnaði eftir hraðaupphlaup á 55. mín. og um það bil tveimur mín. kom síðasta mark Stjörnunnar; staðan þá 26:25 gestunum í hag.

Magnús Dagur Jónatansson jafnar af miklu harðfylgi, 26:26, þegar um tvær mínútur voru eftir. Ef vel er að gáð má sjá Jónatan föður hans spenntan á áhorfendapöllunum!

Magnús Dagur Jónatansson (Magnússonar handboltakappa, Jónatanssonar knattspyrnukempu) jafnaði af miklu harðfylgi þegar hann braust í gegnum Stjörnuvörnina og þrumaði boltanum efst í fjærhornið. Jafnaldrarnir Magnús Dagur og Dagur Árni Heimisson (Árnasonar og Mörtu Hermannsdóttur, handboltahetja) léku báðir vel í kvöld; þeir eru einungis 16 ára en óvenjulega þroskaðir leikmenn miðað við aldur.

Ein­ar Rafn Eiðsson gerði sig­ur­mark KA sem fyrr segir. Í síðustu sókn Stjörnunnar komst Egill Magnússon í gott færi en Norðmaðurinn í marki KA, Nicolai Horntvedt Kristensen, varði.

Síðasta tækifæri Stjörnunnar. Egill Magnússon komst í upplagt færi en Norðmaðurinn Nicolai Horntvedt Kristen­sen varði frá honum.

Mörk KA: Ein­ar Rafn Eiðsson 6 (1 víti), Dag­ur Árni Heim­is­son 6, Magnús Dag­ur Jónatans­son 5, Jó­hann Geir Sæv­ars­son 2, Skarp­héðinn Ívar Ein­ars­son 2, Ein­ar Birg­ir Stef­áns­son 2, Ólaf­ur Gúst­afs­son 1, Jens Bragi Bergþórs­son 1, Ott Varik 1, Pat­rek­ur Stef­áns­son 1.

Var­in skot: Nicolai Horntvedt Kristen­sen 9 (36%), Bruno Bernat 4 (28,6%)

Mörk Stjörn­unn­ar: Her­geir Gríms­son 9, Tandri Már Kon­ráðsson 4 (1 víti), Þórður Tandri Ágústs­son 4, Hauk­ur Guðmunds­son 2, Bene­dikt Marinó Her­dís­ar­son 2, Pét­ur Árni Hauks­son 2, Jón Ásgeir Eyj­ólfs­son 1, Eg­ill Magnús­son 1, Ísak Logi Ein­ars­son 1.

Var­in skot: Sig­urður Dan Óskars­son 19 (43,2%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr leiknum.

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar þakkar dómurunum fyrir leikinn en kveðja sem hann sendi þeim í leiðinni féll í það grýtta jörð að rauða spjaldið var dregið upp úr vasanum.