Fara í efni
KA

Sigur á Stjörnunni í skemmtilegum leik

Markinu fagnað! Sandra María Jessen faðmar Margréti Árnadóttur og þakkar henni fyrir góða sendingu inn á teig í aðdraganda marksins. Myndri: Ármann Hinrik

Þór/​KA nældi í þrjú stig í dag í Bestu deild kvenna, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu, með 1:0 sigri á Stjörnunni í Boganum. Sandra María Jessen gerði eina markið í fyrri hálfleik.

Lið Þórs/KA er áfram í fjórða sæti, hefur nú 15 stig að loknum sjö leikjum, einu minna en toppliðin þrjú; Breiðablik, Þróttur og FH eru með 16 stig, Breiðablik og FH hafa einnig lokið sjö leikjum en Þróttur á einn leik til góða – útileik gegn botnliði FHL á morgun þannig að líklegt má telja að Þróttarar verði einir á toppnum annað kvöld.

Sandra María hefur gert sex mörk í sjö leikjum, einu minna en Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðabliki, sem er markahæst.

Leikur liðanna í dag var vel spilaður og mjög skemmtilegur. Lið Þórs/KA var betra í fyrri hálfleiknum og forystan sanngjörn þegar liðin gengu til búningsherbergja. Stjörnustelpurnar sóttu síðan mjög í sig veðrið í seinni hálfleiknum, héldu boltanum vel og þjörmuðu töluvert að heimaliðinu án þess þó að skapa verulega hættu.

Eina mark leiksins kom á 21. mínútu. Margrét Árnadóttir sendi boltann á Söndru Maríu sem var utarlega í vítateignum vinstra megin. Strax og Sandra María fékk boltann var ljóst að hætta væri í vændum fyrir gestina; aðeins einn varnarmaður nálægur, Sandra sótti að henni, lék til hægri og sendi boltann hárnákvæmt neðst í fjærhornið. Vel að verki staðið hjá þessum frábæra leikmanni.

MARK SÖNDRU

Leikskýrslan

Staðan í deildinni