Fara í efni
KA

KA-menn taka á móti Eyjamönnum síðdegis

Bjarni Aðalsteinsson, fyrir miðju, fagnar marki sínu í sigrinum á ÍBV á Greifavelli KA fyrr í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA tekur á móti ÍBV í dag í lokakafla Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Viðureignin er hluti af neðri hluta deildarinnar, Eyjamenn eru í fallsæti en KA-menn lang efstir í þessum hluta og hafa því í sjálfu sér ekki að neinu að keppa.

KA vann fyrri leik liðanna í Bestu deildinni örugglega 3:0 á heimavelli 15. apríl þar sem Ásgeir Sigurgeirsson, Bjarni Aðalsteinsson og Þorri Mar Þórisson skoruðu en Eyjamenn hefndu fyrir tapið með 2:0 sigri á heimavelli 28. júní.

KA er lang efst í neðri hlutanum með 35 stig en Eyjamenn næst neðstir með 21 stig eins og Fram, einu stigi á eftir Fylki þegar þrír leikir eru eftir. Tvö lið falla, lið Keflavíkur er lang neðst og komið með annan fótinn niður í Lengjudeildina.

Leikurinn verður á Greifavelli KA sunnan við KA-heimilið og hefst klukkan 16.15.