Fara í efni
KA

Bongóblíða í Þorpinu og liðamet á Pollamótinu

Sum lið hafa æft dansatriði og stemningin leynir sér ekki. Myndir: Rakel Hinriksdóttir

Pollamót Samskipa rúllaði af stað í morgun á íþróttasvæði Þórs og í Boganum, en mótið í ár er það stærsta hingað til. Það er liðamet, í ár eru 69 lið skráð til leiks, segja mótstjórarnir, þegar blaðamaður tekur hús á þeim á 2. hæð í Hamri. Aðalgeir Axelsson og Ingi Hrannar Heimisson sitja þar einbeittir við tölvurnar og eru í þann mund að senda hóp af dómurum af stað til þess að halda ró og spekt á öllum 8 völlunum sem keppt er á. 

Á næsta ári verður svæðið svo orðið stærra og við getum bætt við liðum og stækkað mótið enn meira

„Það eru óvenju mörg skráð til leiks í yngstu deildunum, Skvísu- og Polladeild,“ segir Aðalgeir. Eina breytingin í fyrirkomulaginu í ár er að búið er að hækka aldurinn í elstu deild karla, Lávarðadeildinni, úr 50 í 56 ára og eldri. „Það eru fimm lið skráð til leiks í þeirri deild, en hins vegar voru bara tvö kvennalið skráð í elstu deildina þar, Ljónynjudeildina, þannig að hún datt út og þær keppa með næsta flokk fyrir neðan. Mig grunar að EM sé að setja svolítið strik í reikninginn þar, en ég hef heyrt að einhverjir séu að fylgjast með stelpunum okkar í Sviss og missi því af Pollamóti í ár.“

Skvísudeildin er fyrir konur sem eru 20 ára og eldri, en Polladeild er fyrir 28 ára og eldri.

 

Ingi Hrannar og Aðalgeir halda vel á spöðunum í mótsstjórn, enda í mörg horn að líta á stóru móti. Mynd: RH

Spilað á aðalvellinum og fleiri vellir á næsta ári

„Það er ein breyting líka varðandi veitingar, en nú eru leikmenn og aðstandendur kvennaliðs Þór/KA með töluvert úrval á matseðli, til fjáröflunar fyrir liðið,“ segir Aðalgeir. „Svo er náttúrulega nýtt af nálinni að við erum að spila leiki á aðalvelli Þórs, og á næsta ári verður svæðið svo orðið stærra og við getum bætt við liðum og stækkað mótið enn meira, sem við reiknum með að gera.“ 

Mótið er hálfnað þegar þetta er skrifað, en áfram verður haldið í fyrramálið. Skemmtanadagskrá Pollamótsins er alltaf fyrirferðarmikil líka, en það má alveg reikna með að einhverjir keppendur verði kannski rámir í morgunsárið. 

Blaðamaður fór á stjá á milli leikja, enda að sjálfsögðu keppandi líka, og tók nokkrar myndir af léttfetum dagsins: