Fara í efni
KA

Birkir Bjarnason leggur skóna á hilluna

Birkir Bjarnason og Lionel Messi, fyrirliði Argentínu, eftir fyrsta leik Íslands á heimsmeistaramótinu í Rússlandi 2018. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Knattspyrnumaðurinn Birkir Bjarnason, leikjahæsti íslenski landsliðskarlinn, tilkynnti í dag að hann hefði lagt skóna á hilluna. Hann lék á sínum tíma 113 sinnum með A-landsliðinu og gerði 15 mörk.

Hann birti eftirfarandi á Instagram í dag: 

„Eftir mikla íhugun hef ég ákveðið að hætta í atvinnumennsku í fótbolta. Þetta hefur ekki verið auðveld ákvörðun, en ég tek hana með stolti yfir þeim árangri sem náðst hefur og þakklæti fyrir þau tækifæri, reynslu og minningar sem fótboltinn hefur gefið mér.
Þessi reynsla hefur mótað mig á marga vegu og mun fylgja mér áfram næstu kafla lífs míns. Takk fyrir mig!“

Birkir, sem er 37 ára, hóf ferilinn sem ungur drengur í KA en flutti 11 ára til Noregs með foreldrum sínum og steig fyrstu skrefin í meistaraflokki með Viking í Stavangri. Hann hefur komið víða við á farsælum ferli en lék síðast með Brescia á Ítalíu.


Smellið á hlekkinn til að sjá umfjöllun akureyri.net um Birki þegar hann bætti landsleikjametið í nóvember 2021. Ísland mætti þá Norður-Makedóníu á útivelli í undankeppni HM – það var 105. landsleikur Birkis.

Daginn eftir að Birkir bætti landsleikjametið birti akureyri.net skemmtilega myndasyrpu frá ferli hans.


Birkir birti þessa mynd af sér í KA-búningnum á Instagram í dag!