Fara í efni
KA

Bæði KA-liðin meistarar meistaranna í blaki

KA-stelpurnar sem sigruðu í Meistarakeppni Blaksambandsins í gær. Myndir af samfélagsmiðlum KA:

Keppnistímabilið í blaki hófst í gær þegar leikið var um nafnbótina meistarar meistaranna í kvenna- og karlaflokki. Lið KA unnu nánast allt sem hægt var að vinna í báðum flokkum sl. vetur og fóru vel af stað inn í þetta tímabil með því að landa sigri í báðum viðureignum í meistarakeppninni.

Í karlaflokki áttust við KA, sem Íslands- og bikarmeistarar síðasta tímabils, og Þróttarar frá Reykjavík sem höfnuðu í öðru sæti Íslandsmótsins. Viðureign liðanna var jöfn og spennandi - heimamenn í KA unnu fyrstu hrinuna eftir hörkubaráttu en Þróttur svaraði með sigri í þeirri næstu. Þróttarar náðu síðan forystu með því að vinna þriðju hrinuna og áttu góða möguleika á að klára leikinn í fjórðu hrinu. KA-menn  náðu hins vegar að knýja fram 27:25 sigur eftir upphækkun í maraþonhrinu og þá réðust úrslitin í oddahrinu. Þar voru heimamenn í KA sterkari og lönduðu 15:13 sigri. Fjörugur leikur sem lofar góðu fyrir komandi blakvertíð.

KA-strákarnir sem sigruðu Þrótt í jöfnun og spennandi leik í gær.

Í kvennaflokki er KA handhafi allra helstu titla og stúlkurnar hafa reyndar unnið Íslandsmeistaratitilinn fjögur ár í röð. Í viðureigninni um meistara meistaranna mætti liðið Völsungi, sem hafnaði í öðru sæti Íslandsmótsins á síðasta tímabili. Þessi leikur varð ekki eins jafn og spennandi og hjá körlunum. KA vann hrinurnar 25:22, 25:12 og 25:16 og þar með öruggan 3:0 sigur.