Fara í efni
KA

Akureyrskir hand- og fótboltamenn á ferðinni

Knattspyrnuvertíðinni lýkur í dag þegar KA tekur á móti HK í Bestu deildinni og bæði karlalið bæjarins í handbolta verða einnig í eldlínunni.

14.00 KA - HK Besta deild karla í knattspyrnu

  • KA-menn eru lang efstir í keppni sex neðri liða deildarinnar og leika einungis fyrir stoltið í dag eins og undanfarið. HK-ingar eru hins vegar í fallhættu. Þeir eru öruggir með sæti áfram í deildinni geri þeir jafntefli eða sigri. HK getur hins vegar fallið ef liðið tapar fyrir KA, það veltur á úrslitum annarra leikja.
  • Viðureign KA og HK er sýnd beint á Stöð 2 Sport.

16.00 ÍBV - KA Olís deild karla í handknattleik

  • KA, annað tveggja taplausra liða deildarinnar, sækir Íslandsmeistarana heim í Vestmannaeyjum. KA er með sex stig eftir tvo sigra (á Selfossi og Stjörnunni) og tvö jafntefli (gegn Fram og HK) en ÍBV er með fjögur stig eftir tvo sigra (á Stjörnunni og Haukum) og tvö töp (fyrir Víkingi og Gróttu). Þjálfari ÍBV er gamli KA-maðurinn, Magnús Stefánsson. Hann var aðstoðarmaður Erlings B. Richardssonar en tók við sem aðalþjálfari í sumar.

16.00 Haukar U - Þór, Grill66 deild karla í handknattleik

  • Leikið er á Ásvöllum í Hafnarfirði. Þórsarar eru í 3. sæti deildarinnar með þrjú stig að loknum tveimur leikjum, unnu ungmennalið Vals í fyrsta leik en gerðu svo jafntefli við ungmennalið KA. Ungmennalið Hauka er með tvö stig; liðið tapaði fyrir Fjölni en sigraði ungmennalið Fram.
  • Allir leikir Grill66 deildarinnar eru í beinni útsendingu með sjálfvirku myndavélakerfi í keppnishöllunum. Leikirnir eru sýndir í Sjónvarpi Símans, á rásum 401 til 405.