Fara í efni
Jóladagatalið 2021

Auðn – verk af sýningu Friðgeirs Helgasonar

SÖFNIN OKKAR – 95

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.


Friðgeir Helgason
Auðn
Ljósmynd á Kodakfilmu
2012

Friðgeir Helgason er fæddur í Vestmannaeyjum, en eyddi mótunarárum sínum í Reykjavík og hélt ungur til Bandaríkjanna. Hann ílengdist í Louisiana þar sem hann vann sér inn gott orðspor sem kokkur í New Orleans. Um tíma barðist hann við fíkn, varð heimilislaus og vandi m.a. komur sínar á hina alræmdu götu Skid Row í Los Angeles. Eftir að hafa náð tökum á lífi sínu nam Friðgeir ljósmyndun og kvikmyndagerð við Los Angeles City College 2006-2009. Þar fann hann sína sterku rödd og einstöku sýn sem hefur síðan skapað honum sérstöðu. Friðgeir hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga í Bandaríkjunum og á Íslandi.

Verkið sem hér er til umfjöllunar, Auðn frá 2012, er af einkasýningu Friðgeirs sem haldin var í Listasafninu á Akureyri 2017 og bar titilinn Stemning. Á sýningunni mátti sjá ljósmyndir frá Íslandi og Bandaríkjunum. Um sýninguna sagði Friðgeir á sínum tíma: „Ljósmyndirnar á þessari sýningu voru teknar á árunum 2008-2013 þegar ég þvældist um þau svæði sem mér þykir vænst um: annars vegar á Íslandi og hins vegar í Louisiana í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Myndirnar voru allar teknar á Kodakfilmu sem ég prentaði í stækkara upp á gamla mátann. Það jafnast fátt við að keyra stefnulaust um þjóðvegi með gamla góða Pentaxinn og slatta af filmu í skottinu. Stoppa í vegasjoppum, fá sér í gogginn og spjalla við innfædda. Skynja andrúmsloftið og taka ljósmynd þegar tækifæri gefst. Þessi sýning á að fanga þá stemningu.“