Fara í efni
Íþróttamaður Akureyrar

Styrmir Þeyr fljótastur í Þorvaldsdalsskokkinu

Þrír fyrstu karlar í Þorvaldsdalsskokkinu: Ari Björn Jónsson, 2. sæti (2:32:30); Styrmir Þeyr Traustason, 1. sæti (2:29:14); Davíð Jónsson, 3. sæti (2:32:53).

Styrmir Þeyr Traustason og Inga Björk Guðmundsdóttir komu fyrst í mark í Þorvaldsdalsskokkinu, sem haldið var í 32. skipti laugardaginn 5. júlí. Alls tóku 33 keppendur þátt að þessu sinni, við ágætis aðstæður.

Þorvaldsdalsskokkið er eitt elsta utanvegahlaup landsins, þar sem hlaupinn er Þorvaldsdalur í Eyjafirði frá Dagverðartungu að Stærri-Árskógi. Leiðin í hlaupinu er ekki sérstaklega merkt og hlauparar hafa því nokkuð frjálst val um hvernig þeir koma sér frá rásmarkinu í endamark en vegalengdin er nálægt 24 km fyrir flesta.

Þrjár fyrstu konur í Þorvaldsdalsskokkinu: Inga Vaza, 3. sæti (3:22:42); Inga Björk Guðmundsdóttir, 1. sæti (2:50:54); Steinunn Erla Davíðsdóttir, 2. sæti (2:53:31).

Fyrir nokkrum árum fóru hlaupahaldarar að bjóða upp á styttri útgáfu af hlaupinu, sem er um 16 km að lengd. Að þessu sinni voru 7 keppendur sem spreyttu sig á þeirri vegalengd og þar kom Þuríður Elín Þórarinsdóttir fyrst allra í mark. Fyrstur karla var Þorvaldur Lúðvíksson.

Öll úrslit hlaupsins er að finna á timataka.net og vert er að geta þess að áhugasamir hlauparar geta strax tekið frá laugardaginn 4. júlí á næsta ári, þegar Þorvaldsdalsskokkið fer fram í 33. sinn.