Fara í efni
Íþróttamaður Akureyrar

Á Smáþjóðaleikana í Andorra í næstu viku

Sóley Kjerúlf Svansdóttir, Silja Jóhannesdóttir og Hafdís Sigurðardóttir, Hjólreiðafélagi Akureyrar, eru í landsliði Íslands í hjólreiðum sem keppir á Smáþjóðaleikunum í næstu viku. Mynd: aðsend.

Þrír af sex keppendum í hjólreiðaliði kvenna sem keppir fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í Andorra í næstu viku eru í Hjólreiðafélagi Akureyrar. Það eru þær Hafdís Sigurðardóttir, Silja Jóhannesdóttir og Sóley Kjerúlf Svansdóttir. Mótið fer mótið fram 26. - 31. maí og Ísland sendir að þessu sinni 106 keppendur í 10 greinum.

Ásamt Hafdísi, Silju og Sóleyju eru í hjólreiðaliðinu þær Bríet Kristý Gunnarsdóttir, sem er Akureyringur líka, en búsett fyrir sunnan og er í hjólreiðafélaginu Tindi, Sara Árnadóttir í Ægi og Júlía Oddsdóttir í Breiðabliki.

 

Dagskrá hjólreiða

27. maí - tímataka
Kl. 9:15 (7:15 að íslenskum tíma)
13,7 km og 225 metra hækkun
Hafdís Sigurðardóttir (HFA) og Bríet Kristý Gunnarsdóttir (Tindur).

Fjallahjólreiðar 29. maí
Kl. 10 (8 að íslenskum tíma)
5x4 km hringur
Björg Hákonardóttir (Breiðablik)

31. maí - götuhjólreiðar
Kl 9:00 (7 á íslenskum tíma)
67,2 km og 800 metra hækkun
Farnir eru 5 hringir sem eru 9,1 km og síðan er farið einn hring upp fjall sem er 17,2 km í heildina.

HVAÐ ERU SMÁÞJÓÐALEIKAR?
Þátttökurétt á Smáþjóðaleikum, sem haldnir eru á tveggja ára fresti, eiga Evrópuþjóðir með ólympíunefndir sem eru viðurkenndar af Alþjóðaólympíunefndinni (IOC) og eru með íbúatölu undir einni milljón. Þjóðirnar eru þessar:

  • Ísland
  • Kýpur
  • Lúxemborg
  • Andorra
  • Svartfjallaland
  • Mónakó
  • Malta
  • San Marínó
  • Liechtenstein

Fyrir áhugasöm verður hægt að fylgjast með live útsendingu frá öllum greinum á þessum hlekk.

Einnig er hægt að fylgjast með á samfélagsmiðlum: Hjólreiðasambandi Íslands, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ), Hjólreiðafélagi Akureyrar og svo hjá keppendum sjálfum.