Fara í efni
Íslandskortasafn Schulte

„Nýjar“ ljósmyndir frá Konungskomunni 1907

Skjáskot úr danskri kvikmynd, Friðrik VIII gengur upp Torfunefsbryggjuna á Akureyri 13. ágúst 1907. Á húsinu vinstra megin á myndinni sem í dag tilheyrir Hafnarstræti 92 sést hvar hleri hefur verið opnaður milli tveggja glugga og þar glittir í myndavél.

SÖFNIN OKKAR – 108

Frá Minjasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.


Fyrir nokkru fjölluðum við um ljósmyndir sem tveir af ljósmyndurum Akureyrar, Hallgrímur Einarsson og Jón J. Dahlmann, tóku þegar Friðrik VIII Danakonungur heimsótti kaupstaðinn 13. ágúst 1907. 

Um var að ræða afar vegleg hátíðarhöld og var mikill fjöldi manna sem tók á móti konungi og hans fylgdarliði. Bæði Hallgrímur og Jón tóku nokkuð af myndum við þetta tækifæri og eru frummyndir Hallgríms varðveittar á Minjasafninu á Akureyri. Frummyndir Jóns hafa hins vegar ekki varðveist svo vitað sé en tvær mynda hans voru þó þekktar frá hátíðarhöldunum þar sem að hann gaf þær út á póstkortum. Við enduðum þó pistilinn á þessum orðum:

Að lokum má nefna að mjög líklegt er að þennan dag sem Friðrik VIII var á Akureyri hafi Jón tekið fleiri myndir en þær sem rötuðu á póstkort. Myndirnar hafa því miður ekki varðveist svo vitað sé. Einu heimildirnar sem við höfum um ljósmyndatöku Jóns þennan dag eru því póstkortin hans.

Ljósmynd Jóns af landgöngu konungs á Torfunefsbryggju og skrauthliðinu. Myndin er tekin af efri hæð bakhúss sem í dag tilheyrir Hafnarstræti 92.

Einungis nokkrum vikum síðar fannst fyrir tilviljun á erlendri sölusíðu fyrir safnara örk úr franska tímaritinu L'Illustration (14. september 1907) með tveimur ljósmyndum frá konungskomunni á Akureyri ásamt dálitlum texta. Önnur myndin sýndi Friðrik VIII í ræðustól á Hrafnagili en hin var af móttöku konungs við Torfunefsbryggju og skrauthliðinu þar sem hann steig á land. Þetta voru myndir sem við á Minjasafninu á Akureyri höfðum aldrei séð áður og ekki er ólíklegt að þær hafi aðeins verið prentaðar í þetta eina sinn. Fór svo að örkin var keypt og afhent Minjasafninu til varðveislu, en myndirnar þykja dýrmæt heimild um konungskomuna á Akureyri 1907.

Þó nokkrar ljósmyndir frá ýmsum sjónarhornum eru til af skrauthliðinu og er ein ljósmynda Hallgríms mjög svipuð og nánast frá sama sjónarhorni að því er virðist og þessi sem nýverið fannst eftir Jón. Það vakti þó strax athygli að Jón hefur staðið talsvert ofar heldur en Hallgrímur. Miðað við sjónarhorn myndarinnar lá beint við að Jón hlyti að vera staddur í húsi og kom raunar aðeins eitt til greina; það hús stendur enn og er bakhús við Hafnarstræti 92 (nú Bautinn). Til er merkileg rúmlega fjögurra mínútna löng kvikmynd frá komu konungs til Akureyrar 1907 og er hún varðveitt í kvikmyndasafni Danmerkur. Þetta er næst elsta kvikmynd sem til er frá Íslandi. Eitt skot myndarinnar er frá Torfunefsbryggju og inn bæinn þar sem Friðrik VIII og föruneyti hans gengur í land. Þar sést hvar hleri sem var á milli tveggja glugga á efri hæð Hafnarstrætis 92 hefur verið opnaður. Í opinu glittir í myndavél og má því sjá þegar Jón tók umrædda mynd sem birtist rúmum mánuði síðar í L'Illustration.

Örk úr franska tímaritinu L'Illustration frá 14. september 1907. Umfjöllunarefnið er koma Friðriks VIII til Akureyrar 13. ágúst sama ár ásamt tveimur ljósmyndum Jóns J. Dahlmanns ljósmyndara á Akureyri.

Neðst á örkinni í L'Illustration stendur: „Photographies de notre correspondant Jon. J. Dahlmann“ sem í lauslegri þýðingu yfir á íslensku verður „Ljósmyndir eftir fréttaritara okkar, Jón. J. Dahlmann“. Hér eru því komin skýr tengsl milli L'Illustration og Jóns, enda hefur hann greinilega verið í samskiptum við einhvern hjá blaðinu og selt þeim myndir til birtingar. Hafi hann jafnframt selt höfundarréttinn gæti það skýrt hvers vegna þessar myndir hafa ekki sést á póstkorti eða annars staðar. Við nánari eftirgrennslan greindi bæjarblaðið Norðurland frá því 3. október 1907 að Jón hefði fengið birtar tvær myndir frá konungskomunni í L'Illustration, en þar sagði jafnframt að tímaritið væri „Helzta myndablað Parísarborgar“.

Hér hafa því tvær ljósmyndir eftir Jón J. Dahlmann bæst við í sarpinn af konungskomunni 1907 og veita þær enn betri innsýn í þennan merkilega dag í sögu Akureyrar.