Fara í efni
Íshokkí

Undankeppni ÓL: Engin íslensk hokkímörk í dag

Helgi Páll Þórisson, formaður ÍHÍ, Robert Arrak, besti leikmaður Eistlands í dag, Tékkinn Petr Briza, einn af varaforsetum IIHF, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Orri Blöndal, besti maður Íslands í leiknum gegn Eistlandi í dag. Skjáskot af YouTube-rás ÍHÍ.

Allt er gott sem endar vel, segir máltækið, en því miður er ekki hægt að segja að þátttaka Akureyringa og annarra í karlalandsliði Íslands í íshokkí í undankeppni Ólympíuleikanna 2026 hafi endað vel þegar íslenska liðið mætti því eistneska í lokaleik riðilsins sem spilaður var í Reykjavík. 

Akureyringarnir höfðu verið áberandi í fyrri tveimur leikjum liðsins þegar íslenska liðið vann lið Suður-Afríku og Búlgaríu, en hvorki Akureyringum né öðrum í íslenska liðinu tókst að koma pökknum í mark Eistlendinga í dag. Eistlendingar skoruðu tvö mörk strax á upphafsmínútum leiksins, bættu því þriðja við um miðjan fyrsta leikhlutann, tveimur í næsta og einu marki í þriðja leikhlutanum. SA-maðurinn Orri Blöndal var valinn besti maður íslenska liðsins í kvöld.

Íslenska liðið endaði í 2. sæti riðilsins með tvo sigra, en er úr leik í undankeppni Ólympíuleikanna. Eistland vann riðilinn og fer áfram í þriðju umferð undankeppninnar.

  • Ísland - Eistland 0-6 (0-3, 0-2, 0-1)
    Upptöku ef leiknum má finna á YouTube-rás Íshokkísambandsins - sjá hér.
    Leikskýrsla og tölfræði - sjá hér
  • Ísland - Búlgaría 4-3 (1-0, 1-2, 2-1) -
    Í öðrum leik mætti íslenska liðið því búlgarska. Íslenska liðið hafði yfirburði í fyrstu lotu, áttu á þriðja tug skota á markið á móti einu frá gestunum, en skoruðu þó aðeins eitt mark. Það var SA-maðurinn Andri Már Mikaelsson. Búlgarir náðu vopnum sínum í annarri lotu og staðan 2-2 að henni lokinni. Búlgarir komust í 3-2. Annar SA-maður Uni Steinn Blöndal Sigurðarson jafnaði þegar 90 sekúndur voru eftir af leiknum og þriðji SA-maðurinn, Unnar Hafberg Rúnarsson, skoraði fjórða mark Íslands þegar 17 sekúndur voru eftir af leiknum. Auk þessara SA-marka átti Gunnar Arason, fyrrum leikmaður SA sem nú spilar í Svíþjóð, tvær stoðsendingar. Uni Steinn skoraði í þessum leik sitt fyrsta mark með A-landsliði og var valinn maður leiksins.
    Nánar um leikinn á vef Íshokkísambandsins - sjá hér.
    Leikskýrsla og tölfræði - sjá hér.
    Upptöku af leiknum má finna á YouTube-rás Íshokkísambandsins - sjá hér.
  • Ísland - Suður-Afríka 9-0 (3-0, 3-0, 3-0)
    Nokkur styrkleikamunur var á liðunum fjórum því í fyrstu umferð vann Ísland lið Suður-Afríku með níu mörkum gegn engu og Eistland vann Búlgaríu 21-0.
    Akureyringarnir voru nokkuð áberandi í markaskorun og stoðsendingum. Andri Már Mikaelsson, Ormur Karl Jónsson og Unnar Hafberg Rúnarsson skoruðu eitt mark hver ásamt því að Ormur Karl Jónsson, Unnar og Jóhann Már Leifsson áttu stoðsendingar. Þá komu tveir fyrrum leikmenn SA sem nú spila í Svíþjóð við sögu. Gunnar Arason skoraði eitt marka Íslands og Halldór Skúlason átti stoðsengingu.
    Markið sem Ormur Karl skoraði var hans fyrsta mark með A-landsliðinu.
    Nánar um leikinn á vef Íshokkísambandsins - sjá hér.
    Leikskýrsla og tölfræði - sjá hér.
    Upptöku af leiknum má finna á YouTube-rás Íshokkísambandsins - sjá hér


Að loknum sigri á Búlgörum. Mynd: IHI.is.