Fara í efni
Íshokkí

Þórsarar komnir í Bestu deildina!

Leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og hluti stuðningsmanna Þórs eftir að liðið sigraði í Lengjudeildinni í dag og tryggði sér sæti í Bestu deildinni næsta sumar. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Þór tryggði sér í dag sæti í Bestu deildinni, efstu deild Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þórsarar sigruðu Þróttara 2:1 í Reykjavík í lokaumferð næst efstu deildar, Lengjudeildarinnar, og unnu þar með deildina.

Sigfús Fannar Gunnarsson kom Þór í 1:0 eftir laglega sendingu Ýmis Más Geirssonar á 25. mínútu og Ingimar Arnar Kristjánsson breytti stöðunni í 2:0 þegar hann þrumaði boltanum í markið eftir hornspyrnu á 71. mínútu. Viktor Andri Hafþórsson lagaði stöðuna fyrir Þrótt í blálokin.

Þegar lokaflautið gall brutust út gríðarleg fagnaðarlæti meðal Þórsara, jafnt innan vallar sem utan. Lið Þórs hefur ekki leikið í efstu deild Íslandsmótsins síðan 2014; biðin eftir sæti í deild þeirra best hefur verið löng og ströng, og stundin þegar Ívar Orri Kristjánsson dómari blés til leiksloka í dag því sannarlega langþráð.

Þór fékk 45 stig í leikjunum 22, Njarðvík varð í öðru sæti með 43 og Þróttur í þriðja sæti með 41 stig.

MEIRA SÍÐAR

Leikskýrslan

Lokastaðan í deildinni

Sigfús Fannar Gunnarsson (37) ásamt alsælum stuðningsmönnum Þórs eftir að hann gerði fyrsta mark leiksins í dag.

Sigurinn í höfn? Ingimar Arnar Kristjánsson, fremstur, eftir að hann kom Þór í 2:0 í dag. Aðrir Þórsarar, frá vinstri: Christian „Greko“ Jakobsen, Juan Guardia Hermida, Rafa Victor (9) og Ibrahime Balde.

Aron Ingi Magnússon (19) og Ingimar Arnar Kristjánsson (23) fagna með stuðningsmönnum Þórs að leikslokum.