Fara í efni
Íshokkí

Tap í Egilshöll eftir framlengingu og vító

Deildarmeistarar SA fögnuðu deildarmeistaratitlinum í Skautahöllinni á Akureyri á dögunum. Baráttan um stóra bikarinn, Íslandsmeistaratitilinn, er í algleymingi og jafnt í einvíginu, 1-1, eftir tap í Egilshöllinni í kvöld. Ljósmynd: Þórir Tryggvason.

SA tókst ekki að tryggja sér möguleika á að vinna Íslandsmeistaratitilinn á hlaupársdeginum eins og Akureyri.net hafði stungið upp á. Annar leikur SA og Fjölnis fór fram í Egilshöllinni í kvöld og lauk rétt í þessu með sigri Fjölnis eftir framlenginu og vítakeppni. 

Þrjú mörk voru skoruð í fyrsta leikhlutanum. SA náði forystu eftir misheppnaða sendingu varnarmanns Fjölnis til baka. Silvía Rán Björgvinsdóttir náði pökknum, átti skot að marki sem var varið og Amanda Ýr Bjarnadóttir var mætt á fjærstöngina, hirti frákastið og skoraði. Fjölnir náði að jafna um miðjan fyrsta leikhlutann, en fimm mínútum síðar náði SA aftur forystunni. Jónína Guðbjartsdóttir átti þá skot af löngu færi sem Sveindís Marý Sveinsdóttir speglaði í markið. 

Ekkert var skorað í öðrum leikhluta og mikil baráttta út allan leikinn. Fjölnir átti til að mynda 19 skot á markið á móti átta skotum SA-kvenna. Það var svo loks þegar um fimm mínútur voru til leiksloka sem Fjölni tókst að jafna í 2-2. Þrátt fyrir ákafar tilraunir beggja liða komu ekki fleiri mörk í venjulegum leiktíma og því gripið til framlengingar. 

Í framlengingu er fækkað í liðunum, þrír útileikmenn gegn þremur og spilað í fimm mínútur – eða þar til annað liðið skorar því þar með er sigurinn í höfn, með gullmarki. Framlengingin var æsispennandi, fjölmörg færi á báða bóga enda leikurinn opnari með aðeins þrjá útileikmenn í hvoru liði og meira svæði til að athafna sig, en markverðir beggja liða áttu frábærar vörslur í framlengingunni. Ekkert skorað og því gripið til vítakeppni.

  • 0-1 Amanda Ýr Bjarnadóttir (04:40). Stoðsending: Silvía Rán Björgvinsdóttir.
  • 1-1 Kolbrún María Garðarsdóttir (09:06). Stoðsending: Laura-Ann Murphy.
  • 1-2 Sveindís Marý Sveinsdóttir (14:28). Stoðsending: Jónína Guðbjartsdóttir, Arna Gunnlaugsdóttir.
    - - -
  • Markalaus annar leikhluti, Laura-Ann Murphy náði ekki að skora, Shawlee Gaudreault varði.
    - - -
  • 2-2 Sigrún Agatha Árnadóttir (55:11). Stoðsending: Kolbrún María Garðarsdóttir.

  • Leikskýrlan
  • Leikmannalistar

Fjölnir
Mörk: Kolbrún María Garðarsdóttir 1/1, Sigrún Agatha Árnadóttir 1/0, Laura-Ann Murphy 0/1.
Varin skot: Karitas Halldórsdóttir 12 (3, 3, 4, 2) – 85,71%.
Refsimínútur:  6.

SA
Mörk: Amanda Ýr Bjarnadóttir 1/0, Sveindís Marý Sveinsdóttir 1/0, Silvía Rán Björgvinsdóttir 0/1, Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 0/1, Arna Gunnlaugsdóttir 0/1. 
Varin skot: Shawlee Gaudreault 24 (8, 10, 4, 2) – 88,89%. 
Refsimínútur: 10

Vítakeppnin

  • 0-1 Silvía Rán Björgvinsdóttir skorar
  • 0-1 Sigrún Agatha Árnadóttir – Shawlee Gaudreault ver
  • 0-1 Kolbrún Björnsdóttir – Karitas Halldórsdóttir ver
  • 0-1 Hilma Bóel Bergsdóttir – skot framhjá
  • 0-1 Ragnhildur Kjartansdóttir – skot yfir markið
  • 0-1 Laura-Ann Murphy – Shawlee Gaudreault ver
  • 0-1 Sólrún Assa Arnardóttir – Karitas Halldórsdóttir ver
  • 0-1 Teresa Snorradóttir – Shawlee Gaudreault ver
  • 0-1 Sveindís Marý Sveinsdóttir – Karitas Halldórsdóttir ver
  • 1-1 Berglind Leifsdóttir skorar – Shawlee Gaudreault hálfvarði pökkinn, en það dugði ekki til því hann hélt áfram ferðinni lak yfir marklínuna
    - - - 
    Bráðabani
  • 2-1 Kolbrún María Garðarsdóttir skorar
  • 2-1 Silvía Rán Björgvinsdóttir – Karitas Halldórsdóttir ver 

Liðin mætast í þriðja leik úrslitaeinvígisins í Skautahöllinni á Akureyri fimmtudagskvöldið 29. febrúar og hefst sá leikur kl. 19:30. Fjórði leikurinn verður í Egilshöllinni laugardaginn 2. mars kl. 16:45 og sá fimmti, ef þarf, á Akureyri þriðjudaginn 5. mars kl. 19:30. 

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambands Íslands. Ef smellt er á myndbandið er farið beint þegar framlengingin var að hefjast.