Fara í efni
Íshokkí

SA Víkingar með sigur á meisturunum

SA Víkingar unnu SR í kvöld, 4-2. Mynd: SA.

Seinni íshokkíleikur kvöldsins í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld var viðureign liðanna sem áttust við í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn síðastliðið vor, SA Víkinga og Skautafélags Reykjavíkur. SA Víkingar unnu leikinn, 4-2, og eru því komnir með tvo sigra í tveimur leikjum, eins og kvennalið SA.

Það var ekki fyrr en skömmu fyrir lok fyrsta leikhluta sem fyrsta markið kom og þar var á ferðinni Róbert Hafberg sem kom SA Víkingum í 1-0. Axel Orongan jafnaði fyrir gestina um miðjan annan leikhluta. Róbert Hafberg skoraði sitt annað mark skömmu síðar og kom SA Víkingum aftur í forystu, en aftur jöfnuðu SR-ingar, í þetta skipti með marki frá Gunnlaugi Þorsteinssyni.

Uni Blöndal kom SA í 3-2 snemma í þriðja og síðasta leikhlutanum og þannig var staðan fram á lokamínútu leiksins. Þegar rúmlega tvær mínútur voru eftir af leiknum fengu SA Víkingar á sig fimm mínútna dóm og voru því einum færri það sem eftir lifði leiks. Gestunum tókst þó ekki að nýta sér þann liðsmun. Þeir brugðu á það ráð að taka markmanninn út af til að auka þungann í sókninni, en fengu þá mark í andlitið eftir að varnarmenn SA unnu pökkinn og Unnar Hafberg Rúnarsson náði að skora í tómt markið. Áfram voru SA Víkingar einum færri, en héldu út til leiksloka, niðurstaðan 4-2 sigur á Íslandsmeisturunum.

Smellið hér til að skoða leikskýrsluna.

Mörk/stoðsendingar: Róbert Hafberg 2/0, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/1, Uni Blöndal 1/0, Atli Sveinsson 0/2, Marek Vybostok 0/1, Andri Már Mikaelsson 0/1, Hafþór Andri Sigrúnarson 0/1. Varin skot: Tyler Szturm 32 (94%). Refsimínútur: 35.

Upptöku af leiknum má sjá í spilaranum hér að neðan.