Fara í efni
Íshokkí

SA með tvo sigra á SR og Silvía Rán langstigahæst

Silvía Rán Björgvinsdóttir hefur leikið mjög vel í vetur og er langstigahæsti leikmaður Íslandsmótsins. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Deildarmeistarar SA í íshokkí kvenna luku deildarkeppninni með tveimur sigrum syðra um helgina, þeim seinni eftir framlengingu. Silvía Rán Björgvinsdóttir raðaði inn mörkunum í lokaleikjunum, skoraði langmest allra og er langstigahæsti leikmaður deildarinnar.

Röð liðanna þriggja í deildinni var orðin ljós fyrir leiki helgarinnar. SA hafði fyrir nokkru tryggt sér deildarmeistaratitilinn og mætir Fjölni í úrslitarimmu um Íslandsmeistaratitilinn. SA-konur náðu sér í 42 stig í 16 leikjum, unnu 14 leiki, þar af einn í framlengingu, töpuðu tveimur leikjum, þar af einum í framlengingu. 

Fyrri leikurinn fór fram á föstudagskvöld og þar vann SA sex marka sigur þar sem Silvía Rán Björgvinsdóttir fór á kostum og skoraði fimm mörk í 7-1 sigri.

SA skoraði tvö mörk í fyrsta leikhluta og tvö í öðrum, áður en SR náði að skora sitt fyrsta og eina mark í leiknum snemma í þriðja leikhluta. Eftir það komu þrjú mörk frá SA og lokatölur í Laugardalnum 1-7. Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði fimm mörk og átti einna stoðsendingu. Lara Jóhannsdóttir og Arndís Sigurðardóttir skoruðu sitt markið hvor fyrir SA. Amanda Ýr Bjarnadóttir átti tvær stoðsendingar og þær Aðalheiður Ragnarsdóttir, Védís Valdemarsdóttir, Arna Gunnlaugsdóttir eina hver. April Orongan skoraði mark SR eftir stoðsendingu frá Satu Niinimäki. Shawlee Gaudreault var komin aftur í markið hjá SA og varði 25 skot, eða 96,15% af þeim skotum sem hún fékk á sig. Andrea Bachmann varði 33 skot í marki SR, eða 82,5%. SR-ingar dvöldu í sex mínútur samanlagt í refsiboxinu og leikmenn SA í tíu mínútur.

Mun minna var skorað í seinni leiknum sem fram fór í gær. 

Markalaust var eftir fyrsta leikhluta, bæði lið skoruðu eitt mark í öðrum leikhluta, fyrst var það Silvía Rán sem skoraði, en Friðrika Magnúsdóttir jafnaði á lokasekúndum leikhlutans. Ekkert var skorað í þeim þriðja. Staðan var því 1-1 að loknum 60 mínútna leik og því gripið til framlengingar. Amanda Ýr Bjarnadóttir skoraði gullmarkið eftir 90 sekúndna leik og tryggði SA aukastigið.

Silvía Rán treysti stöðu sína á toppnum sem stigahæsti leikmaður deildarinnar, að samanlögðum mörkum og stoðsendingum. Hún skoraði sex mörk um helgina og átti eina stoðsendingu. Samanlagt klárar hún því deildarkeppnina með 38 stig, en næsti leikmaður er Berglind Leifsdóttir úr Fjölni með 21 stig þegar Fjölnir og SR eiga eftir að mætast í lokaleik deildarinnar. Silvía skoraði 27 mörk og átti 11 stoðsendingar. 

Úrslitarimman í Hertz-deild kvenna á samkvæmt dagatali ÍHÍ að hefjast í Skautahöllinni á Akureyri sunnudaginn 25. febrúar.