Fara í efni
Íshokkí

Pílumót kvenna í tilefni af Bleikum október

Frá skemmtimóti píludeildar Þórs í tilefni af Bleikum október á síðasta ári.

Í tilefni af Bleikum október efnir píludeild Þórs til skemmtimóts fyrir konur næstkomandi föstudagskvöld. Mótið verður haldið í aðstöðu píludeildarinnar í gamla íþróttahúsinu við Laugargötu og rennur allur ágóði mótsins til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.

Þetta er þriðja árið í röð sem píludeildin stendur fyrir kvennamóti af þessu tagi í tilefni af Bleikum október. Allar konur eru hvattar til að skrá sig til leiks, hvort sem þær eru vanar eða óvanar, segir í tilkynningu frá píludeildinni. „Upplagt tækifæri fyrir þær sem langar til að prófa pílukast. Tvær konur verða saman í liði og lánspílur á staðnum fyrir þær sem þurfa. Þátttökugjald er 2.000 krónur og rennur það allt til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis.“

Sigurvegarar fá vegleg verðlaun, að því er fram kemur í tilkynningunni, og að auki verða útdráttarverðlaun af ýmsu tagi. Léttar bleikar veitingar í boði og skemmtileg stemmning. Eins og áður segir verður mótið haldið næstkomandi föstudagskvöld, 24. október. Húsið verður opnað kl. 18:30 og keppni hefst kl. 19:30. Skráning fer fram á Facebooksíðu píludeildar Þórs eða með því að senda tölvupóst á pila@thorsport.is