Fara í efni
Íshokkí

Herborg Rut Geirsdóttir íshokkíkona ársins

Herborg Rut Geirsdóttir lyftir Íslandsbikarnum í vor eftir að hún leiddi lið Skautafélags Akureyrar sem fyrirliði til 17. Íslandsmeistaratitils liðsins í röð. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Herborg Rut Geirsdóttir hefur verið valin íshokkíkona ársins af stjórn Íshokkísambands Íslands. Herborg spilaði með Skautafélagi Akureyrar og var fyrirliði liðsins á síðastliðnu tímabili þegar félagið vann 17. Íslandsmeistaratitilinn í röð. Herborg hóf ferilinn hjá SA sem barn, en fluttist ung til Noregs. Hún kom aftur heim til Akureyrar fyrir tímabilið 2022-23 eftir eins árs dvöl hjá Fjölni í Reykjavík.

Íshokkísamband Íslands greinir frá valinu á vef sínum, en þar eru eftirfarandi upplýsingar um feril Herborgar:

Stjórn Íshokkísambands Íslands hittist nú á dögunum og valdi Herborgu Rut Geirsdóttur sem íshokkíkonu ársins. Herborg byrjaði sinn íshokkíferil hjá Skautafélagi Akureyrar ung að árum en fluttist til Noregs ásamt foreldrum sínum. Í Noregi spilaði hún með Spartak Warriors Sarpsborg árin 2014 - 2019. Tímabilið 2019-2020 og 2020-2021 spilaði hún með Troja-Ljungby í fyrstu deild kvenna í Svíþjóð. Covid-tímabilið 2021-2022 kom hún til Íslands og spilaði þá með Fjölni í Hertz-deild kvenna. Íshokkítímabilið þar á efitr, 2022-2023, færði hún sig til Skautafélags Akureyrar og spilaði með þeim í Hertz-deild kvenna og Úrslitakeppni kvenna þar sem hún var með stigahæðstu leikmönnum liðsins. Í dag spilar hún með fyrstu deildar kvennaliði Rögle í Svíþjóð.

Herborg byrjaði sinn landsliðsferil með A-landsliði kvenna árið tímabilið 2016-2017 og hefur verið fastaleikmaður í því liði síðan og keppt bæði á Heimsmeistaramótum IIHF og Undankeppni Ólympíuleikanna fyrir Íslands hönd.

Hægt er að lesa nánar um leikmannaferil Herborgar á Elite Prospects