Fara í efni
Íshokkí

Glæsimark Unnars og SA vann í framlengingu

Unnar Hafberg Rúnarsson fagnar sigurmarki SA í framlengingu leiksins í dag. Mynd: Rakel Hinriksdóttir.

Karlalið Skautafélags Akureyrar í íshokkí, SA Víkingar, vann lið Skautafélags Reykjavíkur með marki í framlenginu þegar liðin mættust í Skautahöllinni á Akureyri í dag. Lokatölur urðu 5-4 og fór vel á því að Unnar Hafberg Rúnarsson, sen nýverið var valinn íshokkímaður ársins, kláraði leikinn fyrir SA með glæsilegu marki eftir 32 sekúndur í framlengingunni.

Það voru þó gestirnir sem náðu forystunni þegar stutt var eftir af fyrstu lotunni. Sölvi Atlason skoraði þá eftir stoðsendingu Hauks Steinssen, var fyrstur í lausan pökk eftir að Jakob Jóhannesson varði skot Hauks.

Snemma í annarri lotunni fékk Ævar Arngrímsson refsingu, 5+20 mínútur, sendur út úr leiknum og SA einum fleiri í fimm mínútur. Þeir nýttu það tækifæri þó afar illa og fengu sjálfir tvær refsingar sem núlluðu út liðsmuninn góðan hluta af refsitíma SR. Þeim tókst hins vegar að nýta yfirtöluna nokkru síðar þegar Jóhann Már Leifsson skoraði eftir stoðsendingu Heiðars Gauta Jóhannssonar. Tæpri mínútu síðar kom Marek Vybostok SA í 2-1 þegar hann fékk pökkinn eftir misheppnaða sendingu SR-inga á leið í sókn. Þannig var staðan fyrir lokaþriðjunginn.

Markasúpa í þriðju lotu

Liðin buðu svo upp á markaveislu í þriðju lotunni. Eftir nokkurra mínútna leik jafnaði Styrmir Maack leikinn fyrir SR, með stoðsendingum frá Alex Mána Sveinssyni og Kára Arnarssyni.

Heimamenn svöruðu með tveimur mörkum. Um miðja lokalotuna komu tvö mörk frá SA á innan við 40 sekdúndum. Fyrst kom Ormur Jónsson SA í 3-2 með góðu skoti fyrir utan eftir stoðsendingu Arnars Kristjánssonar. Heiðar Gauti skoraði fjórða markið eftir stoðsendingar Andra Más Mikaelssonar og Mareks Vybostok, og aftur skapaðist tækifæri eftir slæma sendingu gestanna í eigin varnarsvæði.

Gestirnir úr Laugardalnum voru ekki á þeim buxunum að gefast upp heldur náðu þeir að jafna á síðustu fimm mínútum leiksins. Fyrst var það Kári Arnarsson með stoðsendingum frá Sölva Atlasyni og Hauki Steinsen og svo Daniel Otuoma með stoðsendingu Hákonar Magnússonar þegar um þrjár mínútur voru eftir.

Hvorugu liðinu tókst að bæta við marki áður en þriðja lotan rann sitt skeið og því gripið til framlengingar.

Íshokkímaður ársins kláraði leikinn

Í framlengingu í íshokkí spila færri leikmenn en í venjulegum leiktíma, þrír útileikmenn í stað fimm úr hvoru liði. SR vann pökkinn í upphafi og stillti upp fyrir sókn, náðu að enda hana með skoti á markið, en svo óheppilega vildi til fyrir þá að pökkurinn hrökk til baka og skyndilega voru tveir SA-menn komnir í sókn á móti einum varnarmanni SR. Unnar Hafberg skautaði fram með pökkinn og átti kost á að senda til hægri á Baltasar Hjálmarsson, en Unnar lék skemmtilega á varnarmann SR sem reyndi að slæma kylfunni í pökkinn, en náði ekki til hans. Þar með var Unnar einn fyrir framan markið og þandi netmöskvana með pökknum. Sigur í framlengingu og aukastigið varð eftir á Akureyri.

  • SA - SR 5-4 (0-1, 2-0, 2-3, 1-0)

SA
Mörk/stoðsendingar: Heiðar Gauti Jóhannsson 1/1, Marek Vybostok 1/1, Jóhann Már Leifsson 1/0, Ormur Jónsson 1/0, Unnar Hafberg Rúnarsson 1/0, Andri Már Mikaelsson 0/1, Arnar Kristjánsson 0/1.
Varin skot: Jakob Jóhannesson 24 af 28 (85,7%).
Refsimínútur: 12.

SR
Mörk/stoðsendingar: Kári Arnarsson 1/1, Sölvi Atlason 1/1, Daniel Otuoma 1/0, Styrmir Maack 1/0, Haukur Steinssen 0/2, Alex Máni Sveinsson 0/1, Hákon Magnússon 0/1.
Varin skot: Ævar Björnsson 29 af 34 (85,3%).
Refsimínútur: 37.

Leikskýrslan.
Staðan í deildinni.

SA er í efsta sæti Toppdeildarinnar með 14 stig eftir sjö eiki, stigi á undan SR sem einnig hefur spilað sjö leiki. Þessi sömu lið mætast svo aftur í Skautahöllinni í Laugardal á þriðjudagskvöld og þá ræðst hvort þeirra verður á toppnum um jólin.

Leiknum var streymt á YouTube-rás Íshokkísambandsins og hægt að horfa á upptöku af honum þar.

Öll mörkin eru endursýnd í lok upptökunnar og hægt að fara beint á þau hér: