Fara í efni
Íshokkí

Evrópuleikur í dag – 20 cm jafnfallinn snjór

Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, í áhorfendastúkunni við Greifavöll félagsins í morgun. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Evrópuleikur í knattspyrnu hefst á Greifavelli KA kl. 14.00 í dag þegar strákarnir í 2. aldursflokki félagsins mæta PAOK frá Grikklandi í 2. umferð Evrópudeildar ungmanna, UEFA Youth League. Vetur konungur sendi Akureyringum nokkur sýnishorn í fyrradag en kvaddi sér hljóðs af meiri alvöru í nótt því þegar bæjarbúar risu úr rekkju í morgun var um það bil 20 cm jafnfallinn snjór.

Hitalagnir eru undir gervigrasinu sunnan við KA-heimilið og um níuleytið í morgun var hafist handa við að skafa snjó af vellinum. Þegar akureyri.net leit við um klukkan 10.30 var þriðja umferð hreinsunar í gangi; litlar vinnuvélar voru á vellinum og skófu þunnt snjólag af í hverri umferð og síðan tók handaflið við.

Gestunum frá Grikklandi þótti nóg um við komuna til bæjarins í gærkvöldi en engum sögum fer af því hvernig þeim varð við þegar litið var út um gluggann í morgun. Þrátt fyrir snjóinn ríkti bjartsýni í KA-heimilinu í morgun og næsta víst að leikurinn fer fram.

Mynd sem Sævar Pétursson framkvæmdastjóri KA tók um áttaleytið í morgun og birti á X.