Fara í efni
Íshokkí

Akörn og heimspekileg réttlæting á morðum

AF BÓKUM – 57

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Það vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
 

Í dag skrifar Þorsteinn Gunnar Jónsson_ _ _

Ég setti mér það markmið fyrir næsta ritdóm minn hér, að ég myndi velja af handahófi nýja bók. Tæknilega séð er Páfagaukagarðurinn ný bók, þó svo að fyrsta prentun hafi komið út snemma í sumar. Sú prentun var blá en nú er önnur prentun nýkomin út, appelsínugul og höfundurinn er samkvæmt bakkáputexta „þjóðþekkt manneskja.“
 
Páfagaukagarðurinn er eftir Akörn og rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl sagðist í júní vita fullvel hver þetta væri, hann þekkti handbragðið einfaldlega. Ég er hins vegar alveg úti á þekju enda skiptir það mig engu máli, ekki frekar en að vita hver Stella Blómkvist sé. Mikið var rætt um þetta í sumar, rithöfundar fengu eintak sent til sín og pældu í því hver þetta gæti verið, t.d. Brynhildur Þórarinsdóttir hér fyrir norðan, en eftir því sem ég best veit þá er ekki enn vitað hver þetta er. Mér skilst að einn gjörningur höfundar hafi verið að selja eitt eintak af bókinni frekar dýrt en að hún yrði að vera til sýnis í versluninni í þrjá mánuði. Eintakið seldist ... augljóslega!
 
Þetta er glæpasaga, einungis 120 blaðsíður en þær eru mjög þéttar og mikið kemur fram. Ég hafði lúmskt gaman af bókinni, þó svo að heimspekilegar vangaveltur væru tíðar í henni. Ég vil ekki gefa alltof mikið upp en það má segja að „aðalpersóna“ bókarinnar sé fyrirtæki sem sér um að ryðja fólki úr vegi - en bara þeim sem eiga það raunverulega skilið. Bókin gerist út um allan heim (Blönduós, Tenerife, Bandaríkjunum, Englandi, Ástralíu ...).
 
Þessari aðalpersónu tengjast nokkrir einstaklingar. Baba O'Riley er forsprakkinn, Bogi er siðfræðingur sem hjálpar honum, Jósef er mállaus einkaþjónn, Jenna er dóttir Baba og Róbert er sonur Boga. Eiginkonur Baba og Boga koma fyrir (á áhugaverðan hátt að mörgu leyti) og að málinu vinna rannsóknarlögreglumaðurinn Ægir og aðstoðarmaður hans Bergþóra. Ægir er skemmtilega leiðinlegur karakter! Albönsk mafía fær líka nokkuð pláss.
 
Stíllinn í bókinni var ekki alltaf að heilla mig, langar málsgreinar og heimspekin ... ekki mín sterkasta hlið. En ég hafði gaman af þessu. Að koma jafnmiklu efni fyrir á ekki fleiri síðum er ágætis afrek.
 
Mér varð líka hugsað til þeirra söguþráða þar sem sumum einstaklingum er komið fyrir kattarnef í þágu mannkynsins alls. Þanos nokkur vildi drepa helming alls lífs svo hinn helmingurinn gæti haft það miklu betra. Í sama heimi höfðu glæpasamtökin Hydra uppi hugmyndir um að drepa einstaklinga sem þóttu ekki álitlegir í framtíðinni og var það mat byggt á ákveðnum algóriþma. Í Páfagaukagarðinum (nafnið fær skýringu) eru einstaklingar eða samtök að hafa samband við þetta alþjóðlega fyrirtæki sem Baba O'Riley (já, skírður eftir laginu með The Who) stýrir og biðja um að láta myrða einhvern. Það er svo metið hvort sá einstaklingur eigi það skilið og hvort það sé til bóta fyrir mannkynið.
 
Mig hryllir við þessum hugunarhætti en mér finnst líka skuggalegt að ég skuli hugsa: „Já, veistu ... kannski ... !“
 
Akörn fær hrós frá mér fyrir bókina en alls ekki hæstu einkunn. Ég gæti vel hugsað mér að lesa næstu bók.