Þór/KA tekur móti FHL í Boganum í dag

Þór/KA hefur gengið brösuglega að ná sér í stig eftir EM-hléið. Í dag er komið að heimaleik gegn nágrönnunum úr austri, FHL. Austfirðingar náðu sér í sín fyrstu stig í deildinni í sumar með sigri á Fram á heimavelli í síðustu umferð. Þór/KA sótti FH heim í Hafnarfjörðinn og tapaði þrátt fyrir að hafa skorað þrjú mörk, lokatölur 5-3 FH í vil.
Fyrir leik liðanna í dag er Þór/KA í 5. sætinu með 18 stig, en liðið missti Val upp fyrir sig í síðustu umferð. Fram undan hjá Þór/KA er barátta við að halda sér í efri hlutanum, en í 6. og 7. sæti deildarinnar eru Fram og Stjarnan með 15 stig. FHL þarf auðvitað einnig á stigunum að halda, reyndar öllum stigum sem í boði eru, því liðið er 11 stigum á eftir Tindastóli sem situr í 8. sæti deildarinnar.
- Besta deild kvenna í knattspyrnu, 14. umferð
Boginn kl. 18
Þór/KA - FHL
Fyrri leikur Þórs/KA og FHL sem fram fór í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði snemma í maí endaði með 5-2 sigri Þórs/KA. Sandra María Jessen skoraði þrennu í þeim leik og þær Sonja Björg Sigurðardóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir eitt mark hvor.