Fara í efni
Hrísey

Útboðið kært – Andey siglir áfram út mars

Hríseyjarferjan Sævar. Mynd af vef Vegagerðarinnar.

Vegagerðin hefur framlengt samning við Andey ehf. um að halda uppi siglingum milli Hríseyjar og Árskógasands næstu þrjá mánuði, eða til 31. mars 2023. „Þetta er gert til að siglingar Hríseyjarferju falli ekki niður en það myndi valda mikilli röskun á samgöngum við Hrísey,“ segir á vef Vegagerðarinnar.

Andey ehf. hefur séð um rekstur Hríseyjarferjunnar undanfarin ár en samningurinn rennur út nú um áramótin. Vegagerðin bauð út siglingarnar að nýju og til stóð að gera nýjan samning á grundvelli útboðsferlis sem tæki gildi 1. janúar 2023. Hins vegar urðu ófyrirséðar tafir vegna kæru á útboðinu sem valda því að ekki er unnt að gera nýjan samning um þessar siglingar fyrr en niðurstaða í málinu liggur fyrir, segir á vef stofnunarinnar.

Þrjú tilboð bárust í rekstur Hríseyjarferjunnar fyrir árin 2023-2025, en tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í byrjun desember.

Í Morgunblaðinu í dag kemur fram að lægsta tilboðið átti Eysteinn Þórir Yngvason, fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags, 296,6 milljónir króna. Var það rúmlega 50 milljónum lægra en áætlaður verktakakostnaður, sem var 347,8 milljónir. Ferry ehf. Árskógssandi bauðst til að taka verkefnið að sér fyrir 489 milljónir og Andey ehf. Hrísey fyrir 534,3 milljónir króna.

„Tóku tilboði lægstbjóðanda Vegagerðin ákvað að taka tilboði lægstbjóðanda. Bæði Andey ehf. og Ferry ehf. hafa kært þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála,“ segir í blaðinu. „Í báðum tilvikum er kæruefnið í meginatriðum að tilboð lægstbjóðanda sé í andstöðu við kröfur og skilmála útboðslýsingar og óheimilt sé samkvæmt lögum um opinber innkaup að taka því. Vegagerðin er því ósammála og mun taka til varna fyrir kærunefndinni, samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk hjá Sigríði Ingu Sigurðardóttur, sérfræðingi á samskiptadeild. Framkomnar kærur valda sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar þar til kærunefndin tekur málið fyrir. Vegagerðin hefur frest til 6. janúar að leggja fram sín andsvör og í kjölfarið mun kærunefndin taka ákvörðun um hvort heimilt sé að ganga til samninga.“