Fara í efni
Hrísey

Menntaverðlaunin til Hríseyjar?

Hrund Teitsdóttir, umsjónarkennari á mið og unglingastigi Hríseyjarskóla. Myndin til vinstri var tekin í heimsókn hríseyskra ungmenna til hollensku eyjunnar Vlieland í vor, en hún var hápunktur samstarfsverkefnis Hríseyjarskóla með öðrum eyjaskólum í Evrópu. Hrund hefur unnið að þessu samstarfsverkefni undanfarin tvö ár.

Hrund Teitsdóttir, umsjónarkennari á mið- og unglingastigi í Hríseyjarskóla, hefur verið tilnefnd til Íslensku menntaverðlaunanna fyrir upplýsingatækni og menntun til sjálfbærni í tengslum við alþjóðlegt samstarf.

Á vef Samtaka áhugafólks um skólaþróun kemur fram að Hrund hafi undanfarin tvö ár unnið að Erasmus plus verkefninu Island Schools/iSHRINK sem hefur það að markmiði að koma á tengslum eyjaskóla í Evrópu og stuðla að samstarfi þeirra á milli um nýsköpun í menntun með áherslu á viðfangsefni tengd sjálfbærni. Verkefninu er einnig ætlað að veita nemendum í einangruðum og fámennum skólum metnaðarfull námstækifæri þar sem áhersla er á virka samfélagsþátttöku þeirra og möguleg áhrif nemenda á framtíðarsýn um sjálfbærni samfélagsins sem þeir búa í.

Meðal þess sem Island Schools-verkefnið hefur falið í sér var heimsókn hríseyskra ungmenna til hollensku eyjunnar Vlieland, en Hríseyjarskóli hefur unnið náið með grunnskólanum De Jutter sem þar er starfræktur.

Í umsögn með tilnefningu Hrundar segir meðal annars:

Hrund er stórkostlegur leiðtogi, hvetjandi og drífandi kennari sem ber hag samfélagsins síns fyrir brjósti. Það skín í gegn að hún leitast alltaf við að vinna með styrkleika nemenda og er einstaklega útsjónarsöm við að finna nemendum farveg í námi sem hentar þeim og nýtir upplýsingatækni mikið í þeim tilgangi. Vandamál virðast ekki vera til í hennar orðabók og hún gengur í öll verkefni til að finna skapandi og viðeigandi lausnir. Hún hefur einstaklega uppbyggjandi viðhorf til nemenda sem birtist í djúpum skilningi á því að hver nemandi er einstakur og þannig leitast hún við að mæta hverjum nemanda á eigin forsendum. Það er afar mikilvægt fyrir nemendur og skólastarf í svo fámennum skóla …

Í allri sinni kennslu hefur Hrund unnið markvisst með valdeflingu nemenda, þ.e. fundið styrkleika hvers nemanda. Valdefling nemenda hefur birtst í því að þeir hafa haft áhrif á samfélagið sem þeir búa í, hitt ráðamenn og deilt með þeim hugmyndum sínum og krafist samvinnu og úrbóta. Til að halda utan um svona kennslu þarf sterkan leiðtoga og þar hefur Hrund sannarlega dregið vagninn.