Fara í efni
Hrísey

Hríseyingar stofna þróunarfélag

Ljósmynd: María Helena Tryggvadóttir

Boðað hefur verið til stofnfundar Þróunarfélags Hríseyjar í næstu viku. Meginþemað er að með samvinnu og breiðara baklandi geti samfélagið náð lengra. 

Fram kemur á vef Ferðamálafélags Hríseyjar - hrisey.is - að ætlunin hafi verið að halda stofnfund í byrjun júní, en það hafi frestast og tækifærið notað til að kynna félagið betur, sem var gert laugardaginn 3. júní. Nú þegar hafa bæði fyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök skráð sig sem stofnfélaga. 

„Þróunarfélag Hríseyjar verður leiðandi í almennri byggða- og uppbyggingaþróun í Hrísey í samvinnu við íbúa, fyrirtæki og félög í Hrísey ásamt Akureyrarbæ. Þá falla byggðaþróun, atvinnuþróun og íbúaþróun þar undir. Unnið verður að verkefnum og sótt um styrki í nafni Þróunarfélagsins sem mun þá ekki skarast á við styrki og verkefni sem Ferðamálafélag Hríseyjar sækir um og vinnur að. Með samvinnu og breiðara baklandi frá þeim aðilum sem uppbygging í Hrísey hefur áhrif á, getum við náð lengra,“ segir meðal annars í frétt Ferðamálafélagsins.

Fundurinn verður haldinn í Hlein fimmtudaginn 22. júní og hefst kl. 20. Áhugasöm sem ekki eiga þess kost að mæta á fundinn eru hvött til að hafa samband í netfangið afram@hrisey.is eða í síma 8667786.